Okkur hættir oft til að telja meira betra en minna. Þannig virka hlutirnir samt ekki alltaf. Hlauparar og fjölmargir íþróttamenn miða þjálfun sína við svonefndan hámarkspúls. Einhver kynni að halda að meira sé betra og að best væri að æfa sem oftast og lengst nálægt hámarkspúlsi. Það er þó ekki nauðsynlegt né ráðlegt. Líkaminn nær að bæta afköst og árangur þó æft sé á minna en hámarkspúlsi sem minnkar verulega líkur á meiðslum. Æskilegur æfingapúls sem stuðlar að árangri ætti að vera á bilinu 65-90% af hámarkspúlsi. Hægt er að reikna út hámarkspúls með því að draga aldur frá 220. Reiknaðu síðan 65% og 90% af hámarkspúlsinum og þá ertu kominn með æfingapúlsinn. Þeir sem eru ekki í góðu formi ættu að miða við 55% af hámarkspúls. Vísindamenn hafa mælt með ýmsum aðferðum í gegnum tíðina til að komast að besta æfingapúlsinum en smávægileg frávik skipta í raun engu máli. Nákvæmni í æfingapúlsi er ekki lykilatriði. Vissulega kemstu fljótar í form eftir því sem álagið er meira en það er varasamt til lengri tíma litið. Það tekur lengri tíma að byggja upp gott form og þol með hófstilltum æfingum en það er líklega það skynsamlegasta þegar upp er staðið, sérstaklega með tilliti til heilsunnar og minni slysahættu.
(University of California, Berkeley Wellness Letter, desember 2014)