HandlodKarlViðnámsæfingar í tækjasölum eða lyftingar eins og þær heita upp á gamla móðinn eru orðnar ein vinsælasta hreyfingin hjá almenningi í dag. Þegar á heildina er litið er þróunin sú að í æfingastöðvunum eykst notkun tækjasalana jafnt og þétt á kostnað svokallaðara hóptíma.

Því miður er það svo að margir hætta fljótlega eftir að þeir byrja æfingarnar. Þetta þekkja margir vel, ekki síst þeir sem eru þessa dagana að taka sig taki og ætla að koma sér í form á stuttum tíma. Ein af ástæðunum fyrir því að fólk hættir er sú að það þolir ekki álagið og óþægindin sem geta fylgt því að taka mikið á. Verkir í vöðvum eftir miklar æfingar geta verið fráhrindandi. Alþjóðlegar íþróttastofnanir hafa fram til þessa mælt með því að byrjendur taki 8 til 12 endurtekningar í hverri æfingu og taki u.þ.b. átta æfingar til að byrja með. Fyrir suma, ekki síst eldra fólk er þetta ekki hentug samsetning til þess að losna við verkina. Rannsókn sem gerð var í Rio de Janeiro af Dr. Claudio Soares de Araújo sýndi fram á að tvö sett með sex endurtekningum hafði minna álag í för með sér heldur en eitt sett með 12 endurtekningum. Áhrif á hjarta, mjólkursýru og líðan voru mæld og ljóst var eftir mælingarnar að fyrir sumt fólk er mun betra að byrja á því að taka tvö sex endurtekningasett af hverri æfingu í stað 12 þar til það hefur náð að venjast álaginu og getur aukið við sig. Ekki má nefnilega gleymast að þó viðhorfið no pain no gain sé enn gott og gilt, þá verður það að litlu gagni ef menn hröklast frá æfingum og hætta að hreyfa sig vegna þess hversu óþæglegar þær eru.