braud, bread

Samkvæmt fæðupýramídanum á töluverður hluti af daglegri fæðu að samanstanda af brauði og kornmeti. Víða um heim efast næringarfræðingar um að samsetning pýramídans sé rétt og vilja draga úr neyslu brauðs, sykurs og kornmetis. Þessu til rökstuðnings benda menn á að fæðupýramídinn sé langt því frá að halda offitufaraldrinum í skefjum og eitthvað sé greinilega að. Glýsemíugildi brauðs er mjög hátt, en það segir til um það hversu hratt blóðsykurinn hækkar þegar það er borðað. Í brauði er gjarnan mikið af einföldum sykri og það sem gerist þegar við borðum fæðutegund sem er með hátt glýsemíugildi er að briskirtillinn dælir út miklu magni af insúlíni sem þýðir að á endanum geymir líkaminn meira af fitu  sérstaklega á magasvæðinu. Lausnin er sú að borða meira af fæðutegundum með lágt glýsemíugildi eins og ávexti, grænmeti og mjög trefjaríkt kornmeti. Þær fæðutegundir hækka blóðsykurinn hægar, halda honum lengur í jafnvægi og verða til þess að minna af fitu fer í geymslu á magasvæðinu.

Lítið hefur verið um það hér á landi að næringarfræðingar hafi fjallað um glýsemíugildi fæðutegunda. Miðað við umræðuna í nágrannalöndunum eru íslenskir næringarfræðingar ekki með jafn miklar áhyggjur af glýsemíugildinu eins og kollegar þeirra í Skandinavíu. Svíar hafa gefið út margar bækur sem fjalla um ókosti mataræðis sem er með hátt glýsemíugildi og færa þeir rök fyrir því að offitufaraldurinn og jafnvel tíðni ýmissa hjartasjúkdóma haldist í hendur við aukningu á neyslu fæðutegunda með hátt glýsemíugildi.

Umfjöllun um glýsemíugildi á eflaust eftir að aukast hér á landi þegar menn ranka við sér og átta sig á þýðingu þess fyrir mataræðið.  Skilningur á því hvernig gilýsemíugildið virkar er nauðsynlegur til þess að átta sig á því hvers vegna ein fæðutegund eins og t.d. súkkulaði hækkar blóðsykurinn snögglega sem þýðir að menn fá strax orku og finna ekki til svengdar, en vegna þess hve hátt glýsemíugildið er, fellur blóðsykurinn mjög skyndilega sem þýðir að hungrið sverfur að. Fæðutegundir með lágt glýsemíugildi gefa ekki jafn skyndilega orku, en mun jafnari, endingarbetri og valda ekki öfgakenndum sveiflum í blóðsykrinum. Þannig sveiflast menn ekki svona á milli saðningar og hungurs.