Insúlín hormónið gegnir mörgum hlutverkum í líkamanum. Briskirtillinn framleiðir insúlín þegar t.d. prótínstykki er borðað fyrir eða eftir æfingu sem síðan eykur vöðvastækkun séu rétt skilyrði til staðar. Insúlín getur því miður líka hraðað vexti krabbameinsfrumna, sérstaklega hjá feitu fólki sem komið er yfir miðjan aldur.

Virkni insúlíns er háð svokölluðum viðtökum í frumum sem virka sem einskonar aðgangslyklar fyrir prótín, fitu og kolvetni inn í frumurnar. Viðtakarnir virka ekki sérlega vel eftir langvarandi hreyfingaleysi og líkaminn bregst við með því að dæla út enn meira insúlíni sem getur haft þau áhrif að örva vöxt krabbameinsfrumna hvar sem er í líkamanum.

Kanadískir vísindamenn uppgötvuðu að fólk sem stundar reglulegar æfingar og hreyfingu er í 59% minni hættu á að fá briskrabbamein en kyrrsetufólk. Feitt fólk er í 50% meiri áhættu gagnvart því að fá þessa tegund krabbameins. Regluleg hreyfing getur dregið verulega úr þessari hættu og stuðlað þannig að heilbrigðari frumum. Allir ættu að stunda röska hreyfingu í það minnsta í hálftíma á dag.

(Int J Cancer, 94: 140-147)