Gyllinæð (e. hemorrhoids) er samsafn einnar eða fleiri bláæða í endaþarmi eða endaþarmsopi sem hafa þrútnað út og myndað einskonar æðahnút sem finnst sem þykkildi.

Gyllinæð getur myndast við áreynslu við hægðir, langvarandi setu eða að standa lengi. Í tækjasalnum er það hnébeygjan sem helst veldur gyllinæð. Þetta er hvimleiður kvilli. Það getur blætt úr æðahnútnum ef hann rifnar. Því fylgir kláði og brunatilfinning í endaþarmi. Í einstaka tilfellum getur myndast blóðtappi úr æðahnútum sem gerir ástandið alvarlegra.

Meðferð við gyllinæð ræðst af eðli hennar. Í mörgum tilfellum nægir að nota áburð sem borinn er á gyllinæðina en í verstu tilfellum þarf að beita skurðaðgerð.

Gyllinæð getur myndast við áreynslu við hægðir, langvarandi setu eða að standa lengi. Hnébeygja er einnig varasöm.

Mataræðið getur haft mikil áhrif á gyllinæð og sumir læknar mæla með ákveðnu mataræði í þessu sambandi. Dr. Eric Weiss við Cleveland Klíníkina í Bandaríkjunum heldur því fram að hægt sé að meðhöndla gyllinæð með mataræði. Hann mælir með að borða 25-30 grömm af trefjum á dag, borða gróft korn, ávexti og grænmeti. Einnig er hægt að taka fæðubótarefni sem innihalda sérlega mikið af trefjum þegar erfiðlega gengur að fá nægilegt magn af trefjum í mataræðinu. Gott er að drekka sex til átta vatnsglös á dag til að mýkja hægðirnar og draga úr þörfinni fyrir að rembast. Hreyfing og þá sérstaklega ganga hraðar meltingu og gott er að leggjast í heitt bað.

Ef öll þessi ráð bregðast geta læknar í sumum tilfellum beitt meinlausum aðferðum eins og að frysta (cryotherapy) eða nota rafvefjabrennslu. Skurðaðgerðir eru og eiga að vera síðasta úrræðið. Þær geta valdið aukaverkunum sem fá gyllinæð til að hljóma sakleysislega í samanburði. Það ætti því enginn að samþykkja skurðaðgerð nema að vel athuguðu ráði.

(Bottom Line Health, vefútgáfa)