Með því að skera niður hitaeiningar, taka þungar erfiðar lóðaæfingar með stuttum hléum og borða hátt hlutfall prótíns í mataræðinu er hægt að breyta hlutföllunum á milli fitu og vöðva á skömmum tíma.
Samkvæmt rannsókn sem vísindamenn við McMasterháskólann í Hamilton í Kanada gerðu undir stjórn Stuart Phillips og Thomas Longland náðist töluverður árangur á einungis fjórum vikum.
Þeir sem tók þátt í rannsókninni skáru hitaeiningarnar niður um 40% og borðuðu annað hvort 1,2 grömm af prótíni eða 2,4 grömm fyrir hvert kíló líkamsþyngdar á dag. Báðir hóparnir æfðu stíft í sex daga á viku.
Hópurinn sem fékk meira af prótíni léttist um 5 kg af fitu og bætti á sig 1,2 kg af vöðvamassa á einungis fjórum vikum í samanburði við tæplega fjögur kíló af fitu og 100 grömm af vöðvamassa hjá hópnum sem fékk minna prótín.
Rannsóknin sýnir að stífar æfingar og niðurskurður í hitaeiningum kemur af stað miklum breytingum í líkamanum sem aðlagast nýjum aðstæðum og styrkist.
Árangur hópsins sem fékk meira af prótíni var áberandi sem sýnir hve stórt hlutverk prótín leikur í vöðvauppbyggingu.
(American Journal Clinical Nutrition, vefútgáfa 27 janúar 2016)