Hlutverk fitu er að geyma orkuforða. Orkuforða sem birtist í formi fellinga. Fellinga sem við viljum flest vera án. Fita er beinlínis hættuleg vegna þess að hún stuðlar að bólgum og veldur sjúkdómum. Líkaminn bregst við með ýmsum hætti til að takast á við umframfituna.

Ein leiðin er að mynda drapplitaða fitu sem er þeim eiginleikum gædd að hún geymir orkuforða sem losnar úr læðingi í formi hita. Yong Chen og Alexander Pfeifer við Kaliforníuháskóla í San Francisco endurskoðuðu rannsóknir á þessu sviði og kynntu niðurstöðurnar fyrir skömmu.

Efnaskipti byggjast á samtengdum keðjuverkunum þar sem orka sem leysist úr læðingi eftir efnahvarf er notuð í annað efnahvarf eins og gerist þegar fæða er brotin niður í meltingarvegi og síðan notuð til að mynda ATP. Orkan sem bundin er í ATP er í kjölfarið notuð í hin ýmsu lífeðlisfræðilegu ferli eins og vöðvaátök og aðra starfsemi líkamans.

Ákveðið hlutfall orkunnar leysist úr læðingi sem hiti í stað þess að fara í fituforða líkamans eða geymast í formi ATP. Þetta ferli er kallað aftenging og skiptir miklu máli fyrir þyngdarstjórnun líkamans. Drapplitaða fitan hefur meðal annars það hlutverk að stjórna líkamshitanum og stilla af fituforðann. Þeir félagar við Kaliforníuháskóla halda því fram að efnaskipti þessarar fitugerðar þjóni mikilvægu hlutverki í baráttunni við offitu og benda sérstaklega á að hættan á offitu aukist ef efnaskiptin eru ekki eðlileg.
(Pflueger´s Archives European Journal of Physiology, vefútgáfa 4. október 2016)