Evrópumótið í fitness og vaxtarrækt hófst á fimmtudag í Santa Susanna á Spáni þar sem 438 keppendur frá 40 löndum keppa, þar af fimm íslendingar. Íslendingarnir eru Baldur Borgþórsson sem keppir í öldungaflokki 50 ára og eldri, Alfreð Pálsson sem keppir í 40-49 ára flokki og undir 90 kg í vaxtarrækt, Ásta Björk Bolladóttir sem keppir í fitnessflokki unglinga yfir 163 sm, Linda Jónsdóttir sem keppir í fitnessflokki kvenna yfir 45 ára og Gauti Már Rúnarsson sem keppir í fitnessflokki 40-49 ára fitnessflokki karla. Allir Íslendingarnir áttu í harðri keppni í sínum flokkum en í dag varð ljóst eftir harða forkeppni að öldungarnir komust ekki í sex efstu sætin í sínum flokkum en Ásta Björk Bolladóttir sem keppt í fjögurra manna flokki hafnaði þar í fjórða sæti.
Evrópu- og heimsmeistaramótin eru einu mótin sem veita sigurvegurum réttindi til að sækja um atvinnumannakort hjá Alþjóðasambandi líkamsræktarmanna. Haldin eru upp undir 2000 mót á ári á vegum IFBB víða um heim ef allt er talið en þessi tvö mót tróna á toppnum hvað styrkleika varðar. Það þarf því engan að undra þó Íslendingarnir hafi ekki komið séð og sigrað sína flokka þar sem baráttan um efstu sætin verður einfaldlega ekki harðari.
Allir íslendingarnir mættu í sínu besta formi og voru í mikilli baráttu í sínum flokkum. Það verður ekki ljóst fyrr en seint á sunnudagskvöld hvaða sæti þeir fá þar sem á þessum tímapunkti liggur einungis fyrir hverjir hafna í sex efstu sætunum. Úrslit fara fram á sunnudag og í kjölfarið verða ítarleg úrslit birt.
Þrír alþjóðlegir dómarar frá Íslandi dæma á Evrópumótinu, þeir Einar Guðmann, Jóhann Norðfjörð og Georg Garðarsson. Það hefur vakið eftirtekt á mótinu að Ísland skuli í dag hafa á að skipa fjórum alþjóðlegum dómurum þar sem nágrannalöndin hafa sumhver ekki jafn marga dómara í sínum röðum. Nýverið tók fjórði dómarinn Sigurður Gestsson dómarapróf fyrir hönd Íslands.
Alls eru 11 íslendingar með í för á Evrópumótið sem lýkur á sunnudagskvöld.