Það var 27. nóvember 1994 sem fyrsta fitnessmótið var haldið hér á landi. Í ár eiga fitnessmót því 25 ára afmæli. Það voru þeir Sigurður Gestsson og Einar Guðmann sem héldu fyrsta mótið sem fór fram á Hótel Íslandi en einungis sjö keppendur tóku þátt á þessu fyrsta móti.

Fyrsta Íslandsmótið í vaxtarrækt var haldið 1982, sömuleiðis á Hótel Íslandi sem þá kallaðist Broadway. Þeir félagar, Einar og Sigurður voru þar á meðal keppenda og þar mátti sömuleiðis sjá marga keppendur sem seinna áttu eftir að hafa mikil áhrif á áhuga almennings á líkamsrækt.

Beint og óbeint átti umfjöllun um fyrstu fitnessmótin og þá sérstaklega keppendur þátt í að sýna fram á gildi þjálfunar og hreyfingar. Ákveðnar fyrirmyndir hafa sömuleiðis átt stóran þátt í að hvetja almenning til að stunda æfingastöðvarnar.

Orðið „fitness“ var óþekkt meðal landsmanna fyrir tilkomu þessara móta og fyrstu fimm árin kepptu eingöngu konur á fitnessmótunum. Árið 1999 var í fyrsta skipti keppt í karlaflokki og keppt var í samanburði, hindranabraut, upptogi og dýfum.

Hafa haft víðtæk áhrif á þjóðfélagið

Víða má sjá áhrif þessara fyrstu móta í dag. Skólahreysti er vinsæl liðakeppni milli grunnskóla landsins sem hófst árið 2005 en þar er keppt í sambærilegri hindranabraut, upptogi og dýfum. Beint og óbeint hafa fitnessmót af ýmsu tagi því átt stóran þátt í að sýna ungmennum og öðrum fram á gildi þjálfunar og hreyfingar.

Þeir Einar og Sigurður framleiddu og kostuðu sjálfir marga sjónvarpsþætti fyrir RÚV um fitnessmótin sem varð til þess að fljótlega urðu mótin vel þekkt og áhugi almennings á þessum mótum – og líkamsrækt sem slíkri – fór vaxandi.

Iðkun fárra sérvitringa verður að almenningsiðkun

Á árunum eftir fyrsta Íslandsmótið í vaxtarrækt var iðkun líkamsræktar í æfingastöðvum ekki orðin almenn og æfingastöðvar örfáar. Þeir sem lyftu lóðum eða stunduðu þolæfingar þóttu svolítið öðruvísi en annað fólk.

Í dag stundar stór hluti almennings æfingastöðvar landsins, flestir með það að markmiði að sinna heilsurækt, fitubrennslu og hreyfingu. Stór kjarni stundar keppni í fitness, Crossfit, lyftingum og styrktargreinum. Þeir þykja ekki lengur sérvitringar sem stunda styrktar- og þolþjálfun.

Í tilefni 25 ára afmælis fitnessmóta hér á landi verður haldið Bikarmót í fitness í Hofi á Akureyri 9. nóvember.

Bikarmót í haust á Akureyri

Í tilefni 25 ára afmælis fitnessmóta hér á landi er ætlunin að halda Bikarmótið í fitness í Hofi á Akureyri 9. nóvember. Til margra ára voru fitnessmótin haldin í Íþróttahöllinni á Akureyri og því eiga þau ákveðnar rætur þar. Mörg ár eru síðan fitnessmót hefur verið haldið utan Reykjavíkur og því þykir viðeigandi að minnast þessa áfanga með því að halda mótið á Akureyri. Íslandsmótið verður að venju haldið í Háskólabíói um páskana.

Nokkur plaköt í gegnum tíðina