Þátttökumet var slegið á Íslandsmóti líkamsræktarmanna sem fór fram um páskana í Háskólabíói þegar 151 keppandi steig á svið. Flestir bestu keppendur landsins tóku þátt og er óhætt að segja að nýjar stjörnur hafi fæðst á Íslandsmótinu. Mörg ný andlit stimpluðu sig inn sem öflugir keppendur og sjá mátti miklar framfarir hjá fjölmörgum keppendum. Að lokinni keppni í einstökum flokkum tók við heildarkeppni þar sem sigurvegarar flokka mættust. Heildarsigurvegari fitnessflokka kvenna varð Guðrún Hólmfríður Ólafsdóttir, í módelfitness varð Karen Lind Thompson heildarsiguvegari og í vaxtarræktinni varð Gísli Örn Reynisson Schramm sigurvegari. Sigurvegarar í fitnessflokkum karla voru þeir Elmar Þór Diego sem sigraði í fitness karla, Snæþór Ingi Jósepsson sem sigraði unglingaflokkinn og Mímir Nordquist sem sigraði í sportfitness.
Nýjir meistarar í módelfitness
Keppnin í módelfitness var nokkuð jöfn og sáust mörg ný andlit sem eiga örugglega eftir að láta að sér kveða í framtíðinni. Keppt var í fyrsta skipti í flokki 35 ára og eldri þar sem hörð barátta var á milli Jónu Lovísu Jónsdóttur og Nadedza Nikita Rjabchuk sem lauk með sigri þeirrar síðarnefndu. Það var Rakel Rós Sigurðardóttir sem sigraði unglingaflokkinn eftir afar jafna keppni við Irmu Ósk Jónsdóttur sem er dóttir Jónu Lovísu Jónsdóttur sem keppti í 35 ára og eldri flokknum. Keppnin á milli þeirra var það jöfn að eftir forkeppnina var Irma með forystu en Rakel hafði betur þegar upp var staðið.
Sigurvegarar í hæðarflokkunum í módelfitness urðu þær Christel Ýr Johansen, Rannveig Hildur Guðmundsdóttir, Karen Lind Thompson og Gyða Hrönn Þorsteinsdóttir. Keppnin var sérlega jöfn í hæsta flokknum þar sem baráttan um sigurinn stóð á milli þriggja keppenda, þeirra Aðalheiðar Ýr Ólafsdóttur, Magneu Gunnarsdóttur og Gyðu Hrannar Þorsteinsdóttur. Fyrstu þrjú sætin voru mjög jöfn að stigum en það fór svo að Gyða fór frá því að vera í þriðja sæti eftir forkeppnina í að sigra tiltölulega óvænt þegar úrslitin lágu fyrir um kvöldið. Jafntefli var á milli hennar og Aðalheiðar um fyrsta sætið en samkvæmt reglum er skorið úr um jafntefli með því að kanna hvor keppanda fær fleiri toppsæti frá dómurunum sem eru níu talsins. Gyða stóð því uppi sem sigurvegari að lokum.
Úrslit í fitness og vaxtarrækt
Í vaxtarræktinni var það Gísli Örn Reynisson Schramm sem varð heildarsigurvegari og Íslandsmeistari í undir 90 kg flokki. Mark Bargamento sigraði í unglingaflokki, Sigurkarl Aðalsteinsson sigraði í flokki 40 ára og eldri, Júlíus Þór Sigurjónsson sigraði í undir 80 kg flokki, og Imad El Moubarik sigraði í yfir 100 kg flokki.
Hafdís Elsa Ásbergsdóttir Íslandsmeistari í ólympíufitness
Keppt var í fyrsta skipti í ólympíufitness kvenna sem er nýr keppnisflokkur sem staðsettur er mitt á milli fitness kvenna og vaxtarræktar. Hafdís Elsa Ásbergsdóttir varð Íslandsmeistari í ólympíufitness eftir harða keppni við Elmu Grettisdóttur sem varð önnur, Hildu Elísabet Guttormsdóttur sem varð þriðja og Ragnhildi Gyðu Magnúsdóttur sem varð fjórða. Flokkurinn var allur hinn glæsilegasti og er því spáð að mikill vöxtur eigi eftir að verða í þessari keppnisgrein á næstu árum.
Elmar Þór Diego varð Íslandsmeistari í fitness karla
Hörð keppni var í fitnessflokkum karla þar sem átta reynsluboltar öttu kappi. Það var Elmar Þór Diego sem sigraði en annar varð Kristján Geir Jóhannesson og þriðji Gauti Már Rúnarsson. Íslandsmeistari unglinga varð Snæþór Ingi Jósepsson. Ellefu keppendur voru í unglingaflokki og keppnin því hörð en í öðru sæti varð Fjalar Örn Sigurðsson og Þorlákur Sigurbjörn Sigurjónsson varð þriðji.
Guðrún Hólmfríður Ólafsdóttir varð heildarsigurvegari í fitness kvenna
Una Margrét Heimisdóttir varð Íslandsmeistari í unglingaflokki, Magnea Guðbjörnsdóttir Íslandsmeistari í flokki 35 ára og eldri en þær Guðrún Hólmfríður Ólafsdóttir og Hugrún Árnadóttir sigruðu í yfir og yfir 163 sm flokki. Fór svo að Guðrún sigraði síðan heildarkeppnina á milli sigurvegarana og var því heildarsigurvegari í fitness kvenna.
Mímir Nordquist sigraði í sportfitness
Alls kepptu 19 keppendur í hinum líflega sportfitnessflokki karla. Fjölmargir flottir og efnilegir keppendur tóku þátt en það var Mímir Nordquist sem sigraði. Annar varð Haraldur Fossan Arnarsson og þriðji varð Jóhann Þór Friðgeirsson.
Á föstudaginn langa fer fram keppni í módelfitness í Háskólabíói. Búist er við harðri keppni, enda fjöldi keppenda sem mun stíga á svið. Forkeppnin hefst klukkan 11.00 fyrir hádegi en sjálft úrslitakvöldið hefst klukkan 18.00.
Nánari úrslit verða birt hér um helgina.
Úrslit Íslandsmótsins í fitness, módelfitness, vaxtarrækt, ólympíufitness og sportfitness 2014
PDF skjal með úrslitum (Sumir símar og tölvur sýna ekki alla dálkana)
Myndir á leiðinni í myndasafnið.