Íslandsmót Alþjóðasambands líkamsræktarmanna fór fram um helgina í Íþróttahöllinni á Akureyri. Fjölmennt var meðal áhorfenda og keppenda á Íslandsmótinu sem haldið var í fimmtánda skipti um Páskana í töluverðum snjóþunga. Snjókoma aðfararnótt laugardagsins, snjóflóð og ófærð settu strik í reikninginn fyrir nokkra keppendur.Allir nema tveir náðu þó að mæta til keppni þegar upp var staðið.  Þetta Íslandsmót var um margt sérstakt þar sem öll þekktustu nöfnin í líkamsræktargeiranum mættust á sviði. Það stefndi því fyrirfram í spennandi úrslit.

Rannveig Kramer stóð uppi sem Íslandsmeistari í fitness kvenna, Gauti Már Rúnarsson varð Íslandsmeistari í fitness karla, Margrét Hulda Karlsdóttir varð Íslandsmeistari í módelfitness og Magnús Bess Júlíusson í vaxtarrækt.
Líklega hefur aldrei sést jafn sterkur fitnessflokkur karla á sviði og að þessu sinni. Átta keppendur voru mættir til leiks, hver öðrum betri og allir vel undirbúnir. Fljótlega varð ljóst að kastljósið myndi beinast að þeim Gauta Má Rúnarssyni sem varð Íslandsmeistari á síðasta ári og Kristjáni Kröyer. Mjög jafnt var þó á milli fimm efstu sætana sem blönduðu sér í toppbaráttuna. Gauti Már sigraði með minnsta mögulega mun og varði þannig titil sinn þetta árið. Kristján Köyer varð annar og Kristján Geir Jóhannesson var þriðji.
Keppt var í tveimur hæðarflokkum í kvennaflokki í fitness, yfir og undir 163 sm. Sex keppendur voru mættir til keppni í hvorum flokki og mátti þar sjá þekktustu andlit líkamsræktargeirans á landinu. Í lægri flokkum sigraði Anna Bella Markúsdóttir nokkuð örugglega, enda líklega í sínu besta formi. Í hærri flokknum var mikil spenna þegar þær Heiðrún Sigurðardóttir, margfaldur Íslandsmeistari og Rannveig Kramer, Bikarmeistari síðasta árs mættust á sviði í fyrsta skipti. Þær Einhildur Ýr Gunnarsdóttir og Olga Ósk Ellertsdóttir blönduðu sér báðar í baráttu efstu sætana, enda hafa þær sýnt fram á miklar framfarir á undanförnum mótum. Einhugur var meðal dómara um að Rannveig Kramer ætti fyrsta sætið og hampaði hún því sínum fyrsta Íslandsmeistaratitli. Heiðrún Sigurðardóttir varð því að þessu sinni önnur og Einhildur Ýr Gunnarsdóttir þriðja.
Á föstudeginum var keppt í fitnessflokki 40 ára og eldri. Sigurkarl Aðalsteinsson sigraði þann flokk og sýndi fram á miklar framfarir á milli ára. Annar í þeim flokki varð Trausti Falkvard Antonsson og Böðvar Þór Eggertsson þriðji.
Fimm keppendur voru mættir til keppni í flokki 35 ára og eldri. Kristín Kristjánsdóttir sem nýverið náði frábærum árangri á stórmóti kennt við Arnold Schwartzenegger í bandaríkjunum sigraði þann flokk. Í öðru sæti varð Kristjana Ösp Birgisdóttir og Kristín Jóhannsdóttir varð þriðja. Á þeim tveimur munaði minnsta mögulega mun í stigum.
Endurkoma Maríanne Sigurðardóttur á svið varð til þess að hún endurheimti titil sinn sem Íslandsmeistari unglinga. Þrír keppendur kepptu í flokknum og munaði einungis tveimur stigum á öðru og þriðja sæti. Una Margrét Heimisdóttir hafnaði í öðru sæti og Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir í því þriðja. Mjög litlu munaði á þeim tveimur, en satt að segja var keppnin í flokknum mjög jöfn.
Öll stærstu kaliberin í líkamsræktargeiranum voru saman komin á sviðinu þegar heildarkeppni kvenna hófst. Það voru þær Rannveig Kramer og Heiðrún Sigurðardóttir sem urðu í fyrsta og öðru sæti í undir 163 sm flokki, Anna Bella Markúsdóttir og Eva Lind Ómarsdóttir sem urðu í fyrsta og öðru sæti í yfir 163 sm flokki og Kristín Kristjánsdóttir sem sigraði flokk 35 ára og eldri. Einhugur var meðal dómara um að Rannveigu Kramer bæri fyrsta sætið. Keppnin um annað og þriðja sætið var jafnari. Kristín Kristjánsdóttir hafnaði í öðru sæti og á eftir henni Anna Bella Markúsdóttir. Það eftirtektarverð við úrslitin í heildarkeppninni er líka það að þrjú efstu sætin skipa konur sem allar eiga það sameiginlegt að tilheyra flokki 35 ára og eldri.
<!–[if gte mso 25 glæsilegir keppendur voru mættir til leiks í tveimur flokkum í módelfitness kvenna. Fyrir keppnina var ákveðið að skipta módelfitness upp í tvo flokka í ljósi þess hversu fjölmennur þessi flokkur var orðinn. Skipt var yfir og undir 167 sm. Aðrar áherslur eru hjá dómurum í módelfitness en í fitness. Lítil áhersla er lögð á skurði eða vöðvamótun, en meira horft til fegurðar, framkomu og samræmis í líkamsvexti. Afar ólíkir keppendur voru mættir til keppni sem sumir hefðu frekar átt heima í fitnessflokki kvenna.  Í undir 167 sm flokki sigraði Margrét Hulda Karlsdóttir nokkuð örugglega að mati dómara. Önnur varð Íris Arna Geirsdóttir sem varð Íslandsmeistari á síðasta ári. Hún var ein af þeim keppendum sem varð veðurteppt utanbæjar á meðan forkeppninni stóð en mætti í úrslitin. Gripið var til þess ráðs að dæma alla keppendur aftur um kvöldið í úrslitunum til þess að gæta jafnræðis. Íris mætti ekki í fyrirhugaða myndatöku að móti loknu og því eru engar stúdíómyndir af henni í myndasafni fitness.is. Í þriðja sæti í undir 167 sm flokki varð Svala Magnúsdóttir.

Telma Rut Einarsdóttir sigraði í yfir 167 sm flokki í módelfitness. Á eftir henni kom Sunneva Ósk Guðmundsdóttir og Ragnhildur Finnbogadóttir varð þriðja. Í heildarkeppninni mættust þær Margrét Hulda Karlsdóttir og Telma Rut Einarsdóttir. Báðar marka þær ákveðna stefnumarkandi línu sem dómarar hafa sett með þessum úrslitum í módelfitness. Úrslitin á milli þeirra tveggja voru engan vegin augljós og fór svo að Margrét Hulda Karlsdóttir hafði betur með minnsta mögulega mun.
Á föstudeginum fór fram Íslandsmótið í vaxtarrækt. Keppendafjöldi hefur verið á niðurleið undanfarin ár í vaxtarræktinni um leið og keppendafjöldinn hefur hinsvegar verið á uppleið í fitness og módelfitness. Það breytir þó ekki þeirri staðreynd að þeir fáu vaxtarræktarmenn sem stigu á svið voru þeim mun sterkari. Keppt var í tveimur flokkum í vaxtarræktinni, yfir og undir 90 kg og sitthvor keppandinn var í unglingaflokki karla og kvennaflokki. Alfreð Pálsson sigraði í undir 90 kg flokki eftir hnífjafna keppni við Valgeir Gauta Árnason. Báðir voru vel undirbúnir og munaði einungis einu stigi á þeim félögum.

Í yfir 90 kg flokki voru tveir Magnúsar í aðalhlutverki, þeir Magnús Bess Júlíusson margfaldur Íslandsmeistari og Magnús Samúelsson sem oft hefur ógnað nafna sínum á Íslandsmótum. Báðir mættu þeir nálægt sínu besta formi. Magnús Bess sýndi fram á meiri þorska og skurð í vöðvamassanum heldur en nafni sinn, en þrátt fyrir að Magnús Samúelsson væri líklega hlutfallslega með meiri vöðvamassa skorti hann helst þá hörku og þroska í massann sem þarf að vera til staðar. Fimm dómarar af sjö gáfu Magnúsi Bess fyrsta sætið.

Í heildarkeppninni í vaxtarrækt mættust þeir Magnús Bess og Alfreð Pálsson sem sigraði í undir 90 kg flokki og Hallgrímur Þór Katrínarson sem varð Íslandsmeistari í unglingaflokki. Þeirri viðureign lauk með sigri Magnúsar.
Afhending verðlauna fyrir íþróttamann ársins 2009 hjá Alþjóðasambandi líkamsræktarmanna fór fram um Fitnesshelgina. Þrír keppendur komu þar við sögu, þeir Magnús Bess Júlíusson sem var kjörinn íþróttamaður ársins, Kristín Kristjánsdóttir sem varð önnur og Katrín Eva Auðunsdóttir sem varð þriðja. Þau hafa öll látið að sér kveða á erlendum vettvangi á síðastliðnu ári með góðum árangri.
Einn keppandi mætti til leiks í vaxtarrækt kvenna. Hilda Elísabeth Guttormsdóttir var vel að titlinum komin þó ein væri í flokknum, enda í fínu formi. Það hefur viljað loða við vaxtarrækt kvenna að fámennt sé í þessum flokki, en undanfarin ár hefur Hrönn Sigurðardóttir haldið uppi merkjum vaxtarræktar. Að þessu sinni tekur Hilda að sér það hlutverk með sóma.

Myndir eru komnar í myndasafnið:

Myndir frá fitnessflokkum eru hér.

Myndir frá vaxtarræktinni eru hér. 

 

Aðalsíða myndasafnsins er hér.

Myndir eru teknar af Gyðu Henningsdóttur og Einari Guðmann fyrir fitness.is

Stutt video frá keppninni er á Lifestyle.is (Alfreð Möller).