Sigurbjörn Guðmundsson leiðir okkur í allan sannleika um undirbúning sinn fyrir Íslandsmótið í fitness.
Þegar litið er til baka og skoðað hvernig undirbúningur hefur verið fyrir mót þá má segja að hann hafi í raun aldrei verið nákvæmlega eins en oftast mjög svipaður í grundvallaratriðum. En fyrir síðasta mót tók ég allt aðra stefnu en ég hef áður farið.
Frá því ég byrjaði að keppa hef ég oft spurt sjálfan mig: Hvernig get ég náð þessum mikla skurði sem maður er að sjá í öllum þekktustu líkamsræktarblöðum?

Ég fann svarið í nýjasta eintaki af Supplement Review frá EAS. Sú bók svaraði öllu því sem ég hafði velt fyrir mér á síðasta ári í sambandi við lágkolvetna næringu og leysti öll þau vandkvæði sem fylgja lágkolvetna næringarkerfum sem hafa verið mjög vinsæl síðustu ár þrátt fyrir mikið nýrnaálag. Í bókinni er ekki einungis farið ítarlega í gegnum næringarkerfið, heldur var búið að sérhanna þjálfunarkerfi sem átti að vinna nákvæmlega með næringaráætlunni. Ég settist niður og byrjaði að skipuleggja mig og upp stóð ég með hnitmiðaða 10 vikna áætlun. (Sjá nánar á www.eas.is/muscularity)
Hér að neðan koma nokkur atriði sem ég hef notað í þjálfun minni fyrir mót:

Skipulag
Skipulag er lykilatriði til að ná árangri og þú kemst ekki langt án þess, hvort sem það er í líkamsrækt eða öðru. Frá því ég byrjaði að æfa þá hef ég alltaf haft ákveðið skipulag á þjálfuninni hvort sem það er í eina eða tíu vikur. Stundum hef ég jafnvel útlistað mjög ítarlega þjálfunaráætlun í 6 mánuði.

Markmið
Markmiðasetning er einnig mjög mikilvæg og ég set mér alltaf markmið í hvert skipti sem ég byrja að undirbúa mig fyrir mót. Ég hef ávallt valið mér fyrirmynd. Ég hef gert það að vana að klippa út úr einhverju líkamsræktarblaði mynd af einstaklingi sem ég vil líkjast og hengi hana upp á vegg þar sem ég sé hana daglega. Þannig að þegar mér finnst að móti blási þá lít ég á myndina til að hvetja sjálfan mig til að halda áfram.

Upphýfingar og dýfur
Ég hef gert það að venju að æfa upphýfingar og dýfur tvisvar í viku fram að móti og hef ég alltaf notað sama kerfið til að byggja upp þol í vöðvanna. Því hefur enn ekki verið gefið nafn svo ég viti, en það er framkvæmt þannig að t.d. í dýfum þá tekur þú tvær dýfur, hvílir í 15 sek, tekur fjórar dýfur, hvílir í 15 sek, tekur sex dýfur og hvílir í 15 sek og svo koll af kolli þar til þú getur ekki meir og svo er ferlinu snúið við og farið til baka. Ég geri þetta nákvæmlega eins með upptogið nema þá tek ég eina lyftu, hvíli í 15 sek, tek tvær, hvíli í 15 sek, o.s.frv.

Lokaundirbúningur
Líkamshár eru eitthvað sem margir eiga oft í erfileikum með og það er mjög pirrandi eftir margra vikna undirbúning að fá bólur eða önnur útbrot eftir rakvél eða önnur háreyðingarkrem. Það sem hefur virkað best fyrir mig er að fjarlægja öll hár um 4 vikum fyrir mót með háreyðingarkremi og viðhalda því svo með sköfu 3ja daga fresti fram að móti, eða þar til maður fer að setja á sig húðlitinn.
Þegar 5-7 dagar eru til móts þá geri ég nokkrar einfaldar breytingar á matarræðinu. Allt viðbótarsalt er tekið úr matnum og ég vel mér þannig fæðu að natríummagnið yfir daginn sé ekki meira en 1000 mg. Einn dag fyrir mót minnka ég svo natríumið enn meira, eða undir 500 mg. Á móti kemur að það þarf að auka kalíuminntöku verulega og besta leiðin er að fá kalíum úr fæðunni. Kartöflur eru mjög kalíumríkar, ca. 380mg á hver 100 gr. Kalíumið þarf að vera 3-5 sinnum meira á dag heldur en salt eða um 3000mg-5000mg. Þetta gerir það að verkum að mikil vatnlosun verður undan húðinni og maður lítur út fyrir að vera skornari. Ýmsar jurtir eru góðar fyrir vatnsjafnvægið í líkamanum og að mínu mati virkar Fíflarót (ens. Dandelion Root) í töfluformi best upp á vatnslosun.
Einnig minnka ég vatnsdrykkju smátt og smátt fyrir mót(sjá töflu).

Allar aðrar breytingar í sambandi við matarræðið held ég óbreyttum því mér finnst óþarfi að reyna við einhverjar skyndilausnir rétt fyrir mót til að bæta útlitið.