Sumir eiga auðveldara með að fitna en aðrir. Í árdaga þegar lífsbaráttan var harðari en svo að hægt væri að taka upp tólið og panta heimsendar hitaeiningar hefur þótt góður kostur að eiga auðvelt með að fitna, en ekki í dag. Spurningin er hvort við mennirnir séum fangar erfðafræðinnar þar sem offitugenið býr í sumum okkar eða hvort við séum einfaldlega ofdekruð sófadýr. Ef reynt er að svara þessari spurningu í fúlustu alvöru er ljóst að erfðafræði hefur mikið að segja. Timothy Frayling við Háskólann í Exeter á Bretlandi heldur því fram að erfðafræðilegir þættir séu orsök um 70% offitufaraldursins. Þeir sem hafa svonefnt offitugen séu mun líklegri til að fitna en aðrir. Rannsóknir hans hafa sýnt fram að virkni erfðafræðilegra þátta snýr að því að efla matarlyst. Aðrar rannsóknir hafa sýnt fram á að æfingar í bland við smá sjálfsaga losa um hlekkina sem offitugenið bindur okkur í og því er enginn ofurseldur örlögunum þrátt fyrir að vera með offitugenið. Umhverfisþættir hafa nefnilega afar mikið að segja. Ræður þar miklu aðgengi okkar að orkuríkri fæðu.
Orkuríkar fæðutegundir eru við hvert fótmál. Í dag er ekki hægt að fara á pósthús án þess að súkkulaði sé í boði.
Umhverfið gerir þannig öllum sem hafa tilhneigingu til að fitna erfitt fyrir. Aðgengi að orkuríkum fæðutegundum er ríkulegt og við þurfum lítið að ganga eða hreyfa okkur til að komast í mat og allt umhverfi okkar er hannað til þess að við eyðum sem minnstri orku á milli staða. Við getum ef til vill ekki breytt því hvernig við erum sköpuð, en við höfum frelsi til að breyta utanaðkomandi þáttum sem gera offitugeninu óþarflega auðvelt fyrir.
(Science Daily, 12 september 2012)