Nokkrar japanskar rannsóknir hafa sýnt fram á að lóðaþjálfun í bland við aðferðir sem miða að því að takmarka blóðflæði til ákveðinna vöðva skilar sér í auknum vöðvavexti. Ekki virðist þurfa að hafa mikil áhrif á blóðflæðið til að hafa áhrif á vöðvavöxt. Rannsókn sem gerð var við Háskólann í Tokyo og Háskólann í Oklahoma sýndi fram á að þegar blóðflæði var takmarkað á göngu skilaði það sér í aukinni stækkun á efri- og neðrihluta lærvöðva um þrjú til fjögur prósent. Gönguæfingarnar fólust í að ganga á hlaupabretti í fimm lotum og tvær mínútur í senn, tvisvar á dag í þrjár vikur.

Nú kann einhver að spyrja sig hvernig er farið að því að takmarka blóðflæði til ákveðinna vöðva? Aðferðin sem vísindamennirnir notuðu var að nota einskonar armbönd – í þessu tilfelli uppblásin fótbönd – og þrýstingurinn var hafður á bilinu 16-230 mmHg.

Önnur japönsk rannsókn bendir til að sé æft í klefum sem herma eftir loftþrýstingi í háloftunum stækki vöðvar meira en ella. Þar er að verki annað hvort áhrif þrýstingsins eða takmarkað blóðflæði. Hafa þarf í huga að þessar rannsóknir eru gerðar á venjulegu fólki, ekki þrautþjálfuðum vaxtarræktarmönnum. Það er því ekki hægt að fullyrða að það sama eigi við þegar vel æfðir einstaklingar eiga í hlut.

(Journal Sports Science Medicine, 10: 338-340, 2011)