Sagt er að það sé ekkert til sem heitir að fá sér eitt húðflúr. Einungis það að fá sér fyrsta húðflúrið. Húðflúr smita út frá sér. Það er stórt skref að fá sér fyrsta húðflúrið en þegar það er komið laðar það að sér fleiri. Í ýktustu tilfellum verða húðflúr að sérstöku áhugamáli sem endar með skrautlegum húðflúrum á öllum líkamspörtum.

Samkvæmt könnun Casino.org virðast áhugamenn um húðflúr helst sjá eftir húðflúrum sem þeir fengu sér þegar þeir voru 18-21 ára. Þegar maður er ungur og eilífur virðast sum tákn eða myndir skynsamlegar. 10 árum síðar eru þær glórulaus æskubrek. Mistök.

Svört húðflúr eru að mestu búin til með sóti sem inniheldur krabbameinsvaldandi efni sem nefnist polycystic aromatic hydrocarbon (PAH).

Þýskur húðsjúkdómafræðingur við Háskólann í Regensburg birti nýverið rannsókn í ritinu Experimental Dermatology þar sem fram kemur að 19 vinsælar svartar húðflúrstegundir innihalda PAH.

Húðgreining á fólki með svört húðflúr sýndi fram á óeðlilegar frumubreytingar þegar húðin varð fyrir UVA geislun. Svört húðflúr geta því valdið krabbameini og valdið óeðlilegum efnaskiptum í húðfrumum.