Þegar þú tekur mataræðið í gegn um leið og þú ert að æfa mikið þarftu að huga að því að hagstæðara er að stunda tækja- og lóðaæfingar en að stunda að mestu þolfimi eða hlaup. Á ströngu mataræði er hætt við að vöðvamassi tapist og menn líta ekki eins vel út þegar hann rýrnar. Meiri vöðvamassi brennir þar að auki meira en minni massi. Vertu því spar á hlaupin en taktu vel á í tækjunum. Ekki gleyma því heldur að ef þú ofgerir þér er ólíklegt að þú hafir þolgæði til að halda áfram. „Kúrar“ eiga það sameiginlegt að vera samnefnari fyrir eitthvað sem stendur stutt. Gerðu frekar það sem þú hefur gaman af og þá er líklegra að þú nennir að halda því áfram.