Undanfarið hefur verið hamrað á mikilvægi þess að auka fiskneyslu. Við Íslendingar þurfum ekki langt að sækja fiskinn en engu að síður þurfum við að auka fiskneysluna eins og aðrir. Matseldin skiptir þó höfuðmáli. Ástæða þess að mælt er með aukinni fiskneyslu er að fiskur inniheldur Omega-3 fitusýrur sem talið er að dragi úr hættunni á hjartasjúkdómum – dauðaorsök númer eitt hér á landi. Omega-3 sýrurnar draga úr bólgum, lækka blóðþrýsting og hindra frumuskemmdir. Þær þykja því mjög mikilvægar í þessu sambandi.

Viðamikil rannsókn sem náði yfir 10 ára tímabil við Norðvestur-Feinberg læknaháskólann í Bandaríkjunum og náði til rúmlega 85.000 kvenna sýnir fram á að steiktur fiskur eykur hættuna á hjartasjúkdómum um 50% á meðan bakaður eða soðinn fiskur dregur úr hættunni um 30%. Á þessu er sláandi munur sem segir okkur að það sé einungis á sparidögum sem við eigum að steikja fiskinn. Samkvæmt rannsókninni skipti máli hvaða fisktegund á í hlut. Dökkur fiskur eins og makríll eða lax virkaði betur sem forvörn við hjartasjúkdómum heldur en ljósari fiskur eins og t.d. túnfiskur. Ekki fylgir sögunni hvort ýsa og þorskur sem eru ljósir fiskar og mjög magrir hafi verið hluti af rannsókninni, það verður þó að þykja líklegt. Íslendingar búa við þau forréttindi að hafa aðgang að þessum heppilegu tegundum sem þykja eftirsóttar víða erlendis.

Vísindamennirnir fundu hinsvegar engin tengsl á milli Omega-3 bætiefnatöku og minni hættu á hjartasjúkdómum. Það segir okkur að fyrst og fremst skipti máli hvað við borðum dags daglega og að við eigum að sleppa því að steikja fiskinn upp úr smjörlíki eða olíum. Soðinn eða ofnbakaður fiskur er málið. Einnig er umhugsunarvert að notast við teflon-pönnur sem krefjast ekki fitunotkunar við steikingu.

(Circulation Heart Failure, vefútgáfa 24. Maí 2011)