Í nærmynd er Tanja Rún Freysdóttir keppandi í módelfitness.

Aldur og fyrri störf?

Ég er 16 ára gömul og stunda nám við Menntaskólann við Sund. Meðfram náminu starfa ég í söluturninum Skalla og hef gert það síðastliðið eitt og hálft ár.

Hvaðan ertu?

Fædd og uppalin í Árbænum og grótharður Fylkis-maður

Fjölskylduhagir?

Bý ásamt foreldrum mínum Halldóru og Frey. Síðan eigum við eina tík sem heitir Emma.

Helstu áhugamál?

Ég hef mjög gaman af allri hreyfingu. Þessa mánuðina hefur líkamsrækt og fitness átt hug minn allan en mér finnst líka mjög gaman að fara með vinum mínum á snjóbretti og spila fótbolta en ég spilaði með Fylki í 8 ár áður en ég varð að hætta vegna meiðsla.

Uppáhalds tónlist?

Ég hlusta aðallega á vinsælustu tónlistina hverju sinni eins og þá sem spiluð er á FM957.

Uppáhaldskvikmynd?

Báðar Miss Congeniality myndirnar með Söndru Bullock.

Hvernig er fullkomin helgi?

Fullkomin helgi byrjar á því að sofa út á laugardegi fá mér svo hafragraut með Optimum Nutrition próteini, skella mér á góða æfingu í World Class Laugum og eftir það fá mér eitthvað gott að borða með vinkonum mínum en laugardagar eru hleðsludagarnir mínir og þá get ég leyft mér meira en aðra daga. Laugardagskvöldin enda svo oftast með ísbíltúr. Sunnudagarnir mínir er svo algjörir hvíldardagar þar sem að ég reyni að slaka sem mest á og safna kröftum fyrir komandi æfingaviku.

Hver er uppáhalds veitingastaðurinn?

Klárlega Nings, gæti borðað það í öll mál.

Uppáhalds óholli maturinn?

Pizza og vesturbæjar ís er i miklu uppáhaldi.

Uppáhalds holli maturinn?

Rauðspretta með hrísgrjónum og brokkólí. Annars finnst mér flestur hollur matur góður enda finn ég hvað hann gerir mér gott og hvað ég afkasta svo miklu meira hvort sem það er í skólanum eða í ræktinni.

Hvenær ferðu á fætur á morgnana?

Þá daga sem ég fer í morgunbrennslu vakna ég um kl 5.30 en annars kl 7.00.

Leikhús eða bíó?

Bío allan daginn.

Uppáhaldsíþróttamaður?

Yana Smith, Lít mikið upp til hennar og finnst mjög gaman að fylgjast með henni.

Hvernig er týpýskur dagur hjá þér?

Ég vakna kl 5.30 og geri mig klára í daginn. Mæti svo á æfingu kl 6.00 þar sem að ég tek core æfingarnar mínar og morgunbrennsluna. Morgunmatinn minn borða ég í ræktinni. Eftir morgunæfinguna fer ég í skólann sem ég klára yfirleitt um kl 15.00 þá borða ég pre-workout máltíðina mína og tek strætó úr Árbænum niður í Laugar til að hitta Konna einkaþjálfarann minn. Eftir æfingu fæ ég mér uppáhalds próteindrykkinn minn sem er ON Gold standard með súkkulaðibragði og út í það blanda ég dextrose, mæli með þessu. Því næst tek ég aftur strætó heim upp í Árbæ þar sem ég borða kvöldmat, læri fyrir skólann, undirbý næsta dag og hitti vini mína.

Kjöt eða fiskur?

Bæði gott en borða meira af fiski.

Hver er draumaborgin til að ferðast til?

Ég fór seinustu páska með fjölskyldunni til New York og mér fannst það frábær upplifun en annars hlakkar mig mikið til að koma til Barcelona þegar ég keppi á evrópumeistaramótinu í mai, hef heyrt svo margt gott um borgina.

Hvað ætlarðu að gera á næstunni?

Mín ætlun er að standa mig áfram vel í náminu og halda áfram að rækta líkamann. Mér finnst frábært að sjá þessa miklu breytingu sem hefur orðið á líkamanum mínum á þessum 8 mánuðum sem að ég hef stundað lyftingar og ég er mjög spennt að sjá hversu mikið ég get bætt mig á næstu mánuðum og árum. Núna er ég í undirbúningi fyrir tvö mót annars vegar fyrir Íslandsmótið sem verður um páskana og hins vegar fyrir evrópumeistamótið sem verður í byrjun maí og ég er mjög spennt fyrir báðum mótunum. Annars ætla ég bara að hafa gaman af niðurskurðinum, borða hollt og æfa vel, hlusta á kennarana mína og þjálfara, gera alltaf mitt besta og þá get ég ekki annað en verið ánægð með útkomuna.