Samhengi er á milli offitu, svefnleysis og mikillar vinnu samkvæmt stórri lýðfræðikönnun sem gerð var við Háskólann í Kaupmannahöfn undir stjórn Jean-Paul Chaput. Líklega er helst við breytingar á lífsháttum okkar í seinni tíð að sakast þegar offita er annars vegar. Fái menn ekki nægan svefn geta efnaskiptin brenglast vegna viðbragða líkamans við svefnleysinu. Blóðsykurstjórnun líkamans raskast þegar svefnleysi segir til sín. Svefnleysið örvar svonefnt sjálfsbjargarkerfi líkamans sem verður til þess að taugakerfið spennist upp líkt og gerist hjá dýrum þegar hætta steðjar að. Hungurtilfinning og matarlyst eykst og framleiðsla streytuvaldandi hormóna eykst sömuleiðis. Ennfremur má draga þá eðlilegu ályktun að eftir því sem minni tími fer í að sofa er meiri tími til staðar til að borða. Ofan á allt þetta hafa vinnuaðferðir breyst í áttina að meira hreyfingaleysi – ekki síst með tilkomu tölvunnar og óendanlegs framboðs á sjónvarpsefni í seinni tíð. Erfiðisvinna er ekki jafn almenn og hún var fyrir fáum áratugum síðan. Ytri aðstæður í þjóðfélaginu leggjast á eitt um að fjölga aukakílóuunum. Við sofum minna vegna meiri streytu sem í mörgum tilfellum fylgir aukinni vinnu. Á sama tíma hafa lífshættirnir á vesturlöndum dregið úr hreyfingu en stóraukið framboð af hitaeiningum. Hér áður fyrr var orðið velmegun sett í samhengi við það að hafa nóg að bíta og brenna. Í dag væri nær að tengja velmegun við að brenna fleiri hitaeiningum og bíta minna.

(European Journal Clinical Nutrition, 64: 1032-1033, 2010)