Einn af hverjum sex karlmönnum þarf á lífsleiðinni að takast á við blöðruhálskirtilskrabbamein. Þessi tegund krabbameins er önnur algengasta dánarorsökin af völdum krabbameins hjá karlmönnum. Þetta algenga form krabbameins dregur marga til dauða í sinni verstu mynd og nýverið var offita bendluð við þennan skæða sjúkdóm. Niðurstöður rannsókna sem gerðar v oru við Henry Ford sjúkrahúsið í Detroit í Bandaríkjunum benda til þess að stærð krabbameinsæxla sé mun meiri hjá þeim sem eru of þungir en þeim sem eru í eðlilegri þyngd. Æxlið reynist sömuleiðis skæðara við að eiga hjá þeim sem eru of þungir. Vísindamennirnir draga þá ályktun að hægt sé að fyrirbyggja blöðruhálskirtilskrabbamein með því að viðhalda kjörþyngd. Samkvæmt rannsóknum sem ná lengra en áratug aftur í tímann er tíðni þessa krabbameins lægri meðal þeirra sem hafa viðhaldið þyngd eða lést. Niðurstöðurnar sýna ofan á allt annað hversu mikilvægt það er fyrir karlmenn að þyngjast ekki eftir því sem aldurinn færist yfir. Tíðni þessa krabbameins og annarra skæðra sjúkdóma er einfaldlega hærri hjá þeim sem þyngjast.

(Upplýsingablað frá ársfundi American Urology Association í júní 2010)