Nýlegar rannsóknir á fitu hafa ruglað næringar- og lífeðlisfræðinga rækilega í ríminu. Undanfarin 35 ár hefur verið hamrað á því að forðast mettaða fitu og mjólkurvörur og auka neyslu kolvetna og fjölómettaðra fitusýra þess í stað. Snemma ársins 2014 voru birtar niðurstöður safngreiningarrannsóknar sem markaði ákveðin tímamót. Þar voru teknar saman niðurstöður 44 rannsókna (Chowdbury og fél.) sem benti til að neysla á mettuðum fitusýrum hefði engin áhrif á kransæðasjúkdóma umfram aðrar fitusýrur. Ennfremur hafa aðrar rannsóknir sýnt að mjólkurvörur draga úr hættunni á kransæðasjúkdómum. Í ritstjórnargrein American Journal of Clinical Nutrition er fullyrt að vísindarannsóknir sýni ekki fram á að mettuð fita og mjólkurvörur auki hættuna á hjartasjúkdómum. Þegar hollusta mataræðis er metin þarf að horfa á heildarmyndina í samsetningu fæðunnar í stað einstakra atriða.
Þetta er umræða sem á eftir að standa lengi. Peter Jones og félagar hafa sýnt fram á að fituefnaskipti ráðast af samsetningu fitunnar. Einómettaðar fitusýrur sem mikið er af í svonefndu Miðjarðarhafsmataræði stuðla hugsanlega að fitubrennslu. Til að flækja málið hafa mismunandi gen fólks áhrif á það hvernig líkaminn bregst við ákveðnum fæðutegundum og þar af leiðandi fituefnaskiptum.
(British Journal of Nutrition, vefútgáfa 25. janúar 2016)