Matarvenjur og siðir eru breytilegir eftir löndum. Flestar þjóðir eiga það sameiginlegt að borða eina „aðal-máltíð“ en breytilegt er hvort hún sé í hádeginu eða að kvöldi. Um 70% Ítala borða aðal máltíðina um miðjan daginn en Bretar borða hana síðdegis. Þessi mismunur kann að skýra að hluta til hvers vegna offituhlutfallið er 7,6% á Ítalíu en 20,1% í Bretlandi. Rannsóknir á mönnum og dýrum hafa sýnt fram á að offitutíðni lækkar ef aðal máltíðin er borðuð um miðjan daginn. Í Breskri rannsókn voru 460 manns spurðir út í matarvenjur og þeir sem borðuðu fæstar hitaeiningar yfir miðjan daginn voru með hæsta líkamsþyngdarstuðulinn.

Það er margt sem getur komið í veg fyrir að fólk geti borðað aðal-máltíðina í hádeginu eða um miðjan daginn. Það kann að vera vegna vinnu, skóla, skorts á hvatningu, fjölskylduaðstæðna eða erfiðleika með að breyta um venjur. Fólk sem stundar líkamsrækt er meðvitaðra en annað fólk um mataræðið og hefur því meiri stjórn á heildarneyslunni en gengur og gerist. Það sem er að koma mörgum öðrum í koll sem eru fljótir að fara í ísskápinn eða sækja í mat er að borða tvær stórar máltíðir yfir daginn. Með tilliti til hitaeininga eru fáir sem hafa efni á að borða tvær stórar máltíðir. Heildar hitaeiningafjöldinn er fljótur að safnast saman og þegar þessi hegðun er orðin að lífsstíl er voðinn vís. Kílóin safnast saman á nokkrum árum og þaðan er erfitt að sleppa án breytinga á matarvenjum.
(Proceedings of the Nutrition Society, 75: E12, 2016)