Flestar rannsóknir bendla farsímanotkun við alvarlega sjúkdóma, en inn á milli eru birtar rannsóknir sem gefa til kynna jákvæð áhrif farsíma.

Í ritstjórnargrein skurðlæknaritsins Surgical Neurology (70: 445-446, 2008) var sagt frá nauðsyn þess að fara út í viðamiklar rannsóknir á áhrifum farsímanotkunar vegna hugsanlegra tengsla við alvarlega sjúkdóma á borð við heilakrabbamein.  Tengslin þarna á milli væru það alvarleg að þörf væri á viðamiklum rannsóknum til þess að sannreyna hvort þessi tengsl væru staðreynd. Nýlegar rannsóknir hafa sömuleiðis bendlað farsímanotkun við svefntruflanir og ófrjósemi.
Nýleg rannsókn sem fram fór í Lyon í Frakklandi gaf hinsvegar til kynna að farsímanotkun verndaði fólk gagnvart tveimur ákveðnum tegundum af heilaæxlum. Um var að ræða rannsókn sem 50 vísindamenn frá 13 löndum tóku þátt í og kostaði 30 milljónir dollara. Vísindamennirnir báru saman tvo hópa fólks, annars vegar 6400 farsímanotendur sem höfðu fengið heilaæxli og hins vegar jafn-marga sem ekki notuðu farsíma. Skemmst frá að segja voru niðurstöðurnar afar misvísandi og umdeildar. Verst var að fleiri spurningum var ósvarað eftir rannsóknina en fyrir. Merkilegt verður þó að teljast að tekist hafi að finna 6400 manns sem ekki notuðu farsíma.

(NewScientist, 10. Maí 2010. International Journal Epidemiology, 39: 675-694, 2010)