Efnaskipti eru einskonar summa allra orkuferla í líkamanum. Við borðum til að hafa orku í æfingar, taugastarfsemi, endurnæringu, vefjaviðgerðir og forðageymslu. Mikil orka fer í þessa grunnstarfsemi líkamans og það lætur nærri að 70% allrar orku sem við fáum úr fæðunni sé notuð í þessa starfsemi en æfingar og hreyfing yfir daginn taka um 25% orkunnar. Orkan sem fer í meltingu er þessi 5% sem eftir eru. Tíðni og tímasetning máltíða hafa áhrif á orkuna sem fer í meltingu. Vísindamenn við Háskólann í Nottingham í Bretlandi sem rannsökuðu feitar konur komust að því að óregla í tímasetningu máltíða minnkaði orkueyðsluna sem fór í að melta. Rannsóknin stóð einungis í tvær vikur og það þarf því ekki að koma á óvart að þessi munur á orkueyðslu hafi ekki komið fram í léttingu í rannsókninni en sé horft til lengri tíma er líklegt að áhrifin birtist í formi fleiri aukakílóa. Lexían sem við eigum að læra af þessu er að borða reglulega.
(Proceedings of the Nutrition Society, 75: E6, 2016)