dolla protein duft handlodÞað vakti mikla athygli árið 2008 þegar USA Today greindi frá því að fjölda lyfja væri að finna í drykkjarvatni hjá tugum milljóna Bandaríkjamanna. Þar á meðal fundust hormón, sýklalyf og geðlyf í vatninu. Um var að ræða afar lítið magn, en engu að síður höfðu vísindamenn áhyggjur af langtíma áhrifum þessara lyfja á fólk. Sambærilegt mál kom nýlega upp. USA Today greindi frá því að órannsakað efni væri að finna í fjölda fæðubótarefna. Kallast það DMBA og er örvandi gerviefni. Áhrif þess á menn hafa aldrei verið rannsökuð en engu að síður fannst DMBA í 12 vinsælum fæðubótarefnum sem seld eru á amazon.com og GNC í Bandaríkjunum samkvæmt rannsókn sem gerð var af Pieter Cohen við Harvardháskóla. Gerviefnið er mjög svipað að byggingu og DMAA (AMP salt eða ester af sítrónusýru) sem nýlega var bannað af FDA- Matvæla- og lyfjaeftirliti Bandaríkjanna.

Í rannsókninni var efnainnihald 14 fitubrennsluefna rannsakað og fannst DMBA í flestum þeirra. Öll voru efnin markaðssett til þess að bæta árangur, stuðla að fitubrennslu og skerpa einbeitingu. Virkni og heilsufarsáhrif þessa efnis á menn eru óþekkt. DMAA er svipað örvandi efni sem selt var sem nefúði fram til 1982 en var talið tengjast óreglulegum hjartslætti og heilablóðfalli. Ekki liggur fyrir á þessum tímapunkti hvort Matvæla- og lyfjaeftirlitið hafi fengið tilkynningar um aukaverkanir vegna DMBA.

Í kjölfar umfjöllunar í fjölmiðlum hætti GNC að selja Redline White Heat og OxyTHERM Pro auk fleiri efna. Ekki liggur fyrir hvort fæðubótarefni með þessu efni séu seld hérlendis en oftast er það merkt sem „AMP Citrate“ á umbúðum en einnig „4-amino-2-methylpentane citrate“. Af þeim fyrirtækjum sem nefnd eru í umfjöllun USA Today um efnið eru engin með beina sölu hér á landi en í ljósi möguleika á innkaupum í gegnum vefverslanir er ekki hægt að útiloka að Íslendingar kaupi þessi efni. Vísindamenn hafa hvatt yfirvöld til aðgerða en eins og staðan er í dag hefur ekki verið gripið til aðgerða til að stöðva sölu á fæðubótarefnum sem innihalda þetta efni. Efnið hefur ekki verið skráð hjá FDA – Matvæla- og lyfjaeftirliti Bandaríkjanna og beðið er viðbragða frá stofnuninni.
(Drug Testing and Analysis, vefútgáfa 8. október 2014)