Gunnar Sigurðson
Gunnar Sigurðson

Prótín sem tekið er eftir æfingu eykur nýmyndun vöðvaprótína og getur aukið árangurinn í kjölfar æfinga. Margir íþróttamenn nota því prótíndrykki í kjölfar æfinga til að svala eftirspurn líkamans eftir uppbyggingarefnum. Þessu til viðbótar kjósa margir íþróttamenn að borða kolvetnaríka fæðu eða drekka kolvetnaríka drykki til þess að hlaða vöðvana og lifrina aftur með glýkógeni. Samkvæmt rannsókn sem gerð var við Maastricht Háskólann í Hollandi seinkaði frásogi prótíns ef prótín og kolvetni voru tekin saman en nýmyndun vöðvaprótína breyttist ekkert fyrstu fimm klukkustundirnar eftir máltíðina. Þrátt fyrir að kolvetni tefji fyrir frásogi prótína í meltingu hafa þau ekki áhrif á nýmyndun vöðva þegar upp er staðið. Það ætti því að skaðlausu að vera hægt að drekka eða borða kolvetna- og prótínríkar máltíðir eftir æfingu.
(Journal Clinical Endocrinology Metabolism, 99: 2250-2258, 2014)