Núvitund byggist á að lifa í núinu og einbeita sér að þeirri reynslu sem upplifuð er á því augnabliki sem hún gerist. Hugrækt og hugleiðsla þjálfa núvitund.

Sérfræðingar sem hafa áhuga á bæði líkamsrækt og andlegum vísindum hafa bent fólki á að núvitund dragi úr áti og gagnist þannig í baráttunni við aukakílóin.

Núvitund er hinsvegar ekki fengin á einum degi frekar en annað hér í heimi. Mikill meirihluti megrunarkúra og aðferða sem fólk notar til léttingar misheppnast til lengri tíma litið. Það er því engin sérstök ástæða til bjartsýni á að þessi aðferð dugi umfram aðrar.

Jennifer Daubenmier og félagar við Kaliforníuháskóla komust að því nýverið að aðferðir sem eiga að efla núvitund hafa engin langtímaáhrif á léttingu, blóðsykur, mittismál, blóðþrýsting eða svonefnd C-hvarfgjörn prótín (notuð til að mæla bólgur).

Núvitund er göfugt markmið út frá andlegu sjónarmiði en því miður er ekki hægt að sjá út frá vísindalegu sjónarmiði að hægt sé að sjá að hún skili sér í léttingu til lengri tíma litið.
(Obesity, vefútgáfa í mars 2016)