Venjuleg hvít fita er einskonar orkuforði fyrir líkamann. Hún geymir orku sem á að nýtast okkur þegar harðnar á dalnum. Brún fita er hinsvegar vefur sem breytir orku í hita. Afar lítið er af brúnni fitu í líkamanum í samanburði við hvítu fituna og einnig mjög persónubundið hversu mikið er af henni. Brúna fitan er því öfugt við hvítu fituna að eyða orku í stað þess að geyma. Fram til þessa hafa vísindamenn talið að brúna fitan hafi ekki mikið að segja um efnaskipti líkamans. Með tilkomu nýrrar tækni (PET skönnunar) hefur hinsvegar komið í ljós að magn brúnu fitunnar er umtalsvert hjá sumum sem gæti skýrt hvers vegna sumir hafa meiri tilhneigingu en aðrir til að fitna. Lyfjaframleiðendur hafa því reynt að búa til lyf sem hafa áhrif á virkni brúnu fitunnar. Mirabegron (Myrbetriq) er lyf sem eykur virkni brúnu fitunnar samkvæmt rannsókn sem Aaron Cypress við Læknaháskóla Harvard gerði. Mirabegron er notað við ofvirkni í þvagblöðru og virðist auka brennsluvirkni brúnu fitunnar. Vonir eru því bundnar við að lyfið komi til með að gagnast í baráttunni við offituna.
(Cell Metabolism, 22: 33-38, 2015)