Hár blóðþrýstingur er eitt alvarlegasta vandamálið sem við stöndum frammi fyrir í dag vegna sambandsins við fitusöfnun í æðaveggi í hjarta og við hjartasjúkdóma. Það var árið 1994 sem vísindamenn sýndu fram á samhengi á milli offitu, æfingaleysis, sykursýki, of hás kólesteróls og of hás blóðþrýstings. Kenningin snérist um að léttast eða æfa meira til þess að lækka blóðþrýstinginn. Dr. Victor Stevens og félagar við Kaiser Permanente rannsóknamiðstöðina í heilbrigðisfræðum í Portland rannsökuðu tæplega 1200 karla og konur sem voru með of háan blóðþrýsting (140/90 mm Hg eða meira). Helmingur hópsins var settur á þriggja ára léttingaráætlun undir eftirliti en hinn helmingurinn var beðinn um að hafa stjórn á líkamsþyngdinni (gamla aðferðin). Þeir sem voru undir eftirliti léttust um 5 kg og blóðþrýstingur þeirra lækkaði um 7mm Hg efri mörk og 5 mm Hg neðri mörk á meðan viðmiðunarhópurinn þyngdist og blóðþrýstingur þeirra hækkaði. Niðurstaðan þykir sýna að jafnvel lítil létting hefur mikil jákvæð áhrif á heilsu. Ann. Intern. Med. 134: 1-11, 2001