Öll þurfum við orku úr fæðunni til þess að hreyfa okkur og komast í gegnum daginn með bros á vör. Hver kannast þó ekki við það að koma heim í hádegi eða að kvöldi og borða máltíðina með bestu list en sitja síðan hálf lamaður á eftir?Oft er það svo að matur dregur úr manni allan mátt. Menn verða syfjaðir, þreyttir og einbeiting er ekki lengur til staðar svo heitið geti og skapferli getur breyst talsvert í kjölfar máltíðar. Talsverðan tíma getur tekið að komast í almennilegt ástand eftir slíkar máltíðir en ákaflega misjafnt er hversu mikil áhrif fæða hefur á þessa þætti og því hefur loksins verið rannsakað hver munurinn sé á fæðutegundum eða orkuefnum í þessu tilfelli. Það var P. J. Rogers við Food Behavior stofnunina í Berks á Englandi sem gerði slíka rannsókn og sagði frá henni í fréttabréfinu Physiology and Behavior. Tíu manns borðuðu þrjár mismunandi máltíðir á þremur mismunandi dögum. Fyrsta máltíðin innihélt litla fitu, hátt hlutfall kolvetna, önnur innihélt meðalmagn fitu og meðalmagn kolvetna en þriðja máltíðin innihélt mikið af fitu og lítið af kolvetnum. Allar máltíðirnar innihéldu svipað magn hitaeininga. Eftir ýmsar tilraunir kom í ljós að viðbragð manna var hægara eftir máltíð sem innihélt litla fitu og mikið af kolvetnum og einnig eftir máltíð sem innihélt mikið af fitu og lítið af kolvetnum, en máltíð með meðalmagni fitu og meðalmagni kolvetna bætti viðbragðstímann. Þeir sem þátt tóku í tilrauninni fundu fyrir syfju og óákveðni og voru ekki eins kátir og þeir voru fyrir máltíðina eftir að hafa borðað máltíðir með annarsvegar mikilli fitu og lítið af kolvetnum og hinsvegar lítið af fitu og mikið af kolvetnum. Þeir voru afslappaðri og rólegri eftir máltíð með lítilli fitu og mikið af kolvetnum þannig að draga má þá ályktun að öfgar í aðra hvora áttina komi niður á skerpu í hugsun en kolvetnaríkar máltíðir hjálpa hins vegar til við að slaka á.