Einn helsti ókosturinn við margar rannsóknir sem gerðar eru á virkni bætiefna er sá að oft á tíðum eru þeir sem notaðir eru í tilraunahópum ekki íþrótta- né vaxtarræktarmenn sem eru í góðu formi. Í mörgum rannsóknum er notast við háskólanemendur eða læknanema og því oft um tiltölulega óþjálfaða einstaklinga að ræða. Fyrir líkamsræktar- og vaxtarræktarfólk getur þessi munur skipt miklu máli þar sem það er fyrst og fremst að leita vitnisburðar um að ákveðin bætiefni gagnist því en ekki bara fólki sem er í lélegri þjálfun. Til þess að afmá þessa skekkju úr rannsóknarniðurstöðum eru menn því farnir að gera rannsóknir sem miðast við fólk sem er í góðri æfingu. Ein slík rannsókn var framkvæmd af Dr. Michael Bembin við Háskólann í Oklahoma í Bandaríkjunum. Þar voru áhrif kreatíns rannsökuð á hóp leikmanna í fyrstu deild Ameríska fótboltans í níu vikur. Þeir bættu styrk í bekkpressu, jafnhöttun og hnébeygju auk þess sem þeir bætt á sig vöðvamassa. Einnig bættu þeir árangur sinn í stuttum sprettum á reiðhjóli (Svokallað Wingate próf). Árangur þeirra var mun meiri en hjá viðmiðunarhóp sem tók gervikreatín og hjá viðmiðunarhóp sem fékk enga meðferð. Kreatínið jók einnig vatnsmagnið í vöðvafrumunum  – sem hjálpar þeim að mynda nýtt prótín og geyma glykogen sem vöðvarnir nota sem orku. Þessi vel útfærða rannsókn er mikilvæg fyrir þær sakir að hún sýnir áhrif Kreatíns á vel þjálfaða einstaklinga.
(Med. Sci. Sports Exerc. 33: 1667-1673, 2001)