konaadhlaupaKolvetni eru aðal eldsneyti líkamans þegar æfingar og átök fara yfir 65% af hámarksgetu. Vöðvarnir og lifrin geta geymt um 400 g af kolvetnum sem eru skjótur orkugjafi í átökum þar sem tekið er mikið á í stuttan tíma með hléum. Forðinn er fljótur að tæmast ef átökin vara lengi, sérstaklega eftir þungar æfingar eða erfiðar keppnir. Kolvetni eru sömuleiðis mikilvægur orkugjafi í langvarandi hlébundnum æfingum. Lindsay Baker og félagar endurskoðuðu útgefnar rannsóknir á þessu sviði en hann starfar við Gatorade vísindamiðstöðina í Barrington í Illinois. Þeir ályktuðu að þegar kolvetni væru tekin á meðan æfingum eða keppnum standi séu áhrifin að koma í ljós á seinni hluta æfingarinnar eða keppninnar. Æskilegt sé að fá 30-60 g af kolvetnum á hverjum klukkutíma í sex til sjö prósenta vökvalausn. Það myndi þýða sex eða sjö grömm af kolvetnum í hverja 100 millilítra af vatni. Kolvetnin eru oftast súkrósi, glúkósi eða maltósi.
(Nutrients, 7: 5733-5763, 2015)