Bikarmot2015_GH41888Bikarmótið í fitness fer fram 19. nóvember í Háskólabíói. Að venju verður keppt í öllum helstu flokkum en nú ber svo við að byrjendum gefst kost á að keppa í sérstökum byrjendaflokki í módelfitness. Í nágrannalöndunum eru haldin sérstök byrjendamót sem eru að verða fjölmennustu mótin. Ekki er líklegt að grundvöllur sé fyrir því að halda sérstakt byrjendamót hér á landi en ætlunin er að gera tilraun með að bjóða upp á byrjendaflokk sem ætti að auðvelda keppendum að stíga sín fyrstu skref á sviði.

Aldursmörk í unglingaflokki hækkuð um eitt ár

Ákveðið hefur verið að hækka aldur í unglingaflokki í módelfitness um eitt ár. Fram til þessa hefur unglingaflokkurinn verið fyrir keppendur á aldrinum 16-18 ára en aldurinn er hækkaður til samræmis við aldurinn í sportfitness eða 16-19 ára. Flokkurinn er því fyrir keppendur sem verða 19 ára á árinu. Nýliðun hefur verið lítil meðal 16-17 ára og því var ákveðið að breyta aldurstakmörkunum til þess að hvetja keppendur til að taka þátt.

Gjald tekið upp vegna skráninga á erlend mót

Af marggefnu tilefni hefur verið ákveðið að keppendur sem sækja um keppnisrétt á erlendum mótum greiði kr. 7000 í staðfestingargjald. Mikið hefur borið á því að keppendur sem sótt hafa um leyfi til að keppa erlendis hafi hætt við að taka þátt og ekki látið vita. Þetta hefur ítrekað valdið vandræðum og hefur Fitness á Íslandi fengið athugasemdir frá keppnishöldurum vegna líkra mála. Gjaldið verður ekki endurgreitt þó viðkomandi keppandi hættir við að keppa en gjaldið verður hinsvegar notað sem greiðsla upp í keppnisgjald sem keppendur þurfa hvort eð er að borga erlendis. Algengt er að keppnisgjöld séu á bilinu 300-450 evrur á alþjóðlegum mótum. Keppendur fá hinsvegar endurgreitt ef þeim er synjað um keppnisleyfi.