Hægt er að auka þol og draga úr þreytu á æfingum með neyslu koffín- og kolvetnadrykkja. Þessir drykkir eru að ná vaxandi vinsældum hér sem annars staðar og af og til birtast rannsóknir sem renna stoðum undir að þessi tegund drykkja virki betur en hreina vatnið okkar á þol og frammistöðu við æfingar.Hollustan er ekki hér til umfjöllunar og skal því ósagt látið hver áhrif þessara drykkja eru til langframa.
Koffínið í þessum drykkjum virkar þannig að það dregur úr þreytu í miðtaugakerfinu og örvar vöðvavirkni. Kolvetnin bæta hinsvegar frammistöðuna með því að viðhalda jöfnum blóðsykri. Breskir vísindamenn við Háskólann í Birmingham sem rannsökuðu hjólreiðaiðkendur komust að þeirri niðurstöðu að þeir sem drukku koffín- og kolvetnadrykki á meðan æfingu stóð juku þol um 4.6% í samanburði við þá sem drukku einungis kolvetnadrykk og 9% miðað við þá sem drukku hreint vatn. Koffínið sjálft virtist ekki hafa áhrif á kolvetna-efnaskipti á meðan æfingu stóð.
(Medical Science Sports Exercise, 40: 2096-2104, 2008)