Fjallað var um innihaldslaus fæðubótarefni í Kastljósi í gær. Yfirskrift þáttarins var „Fæðubótarefni almennt óþörf“. Lagt var upp með að fjögur fyrirtæki í New York hafi orðið uppvís að því að selja lækningajurtir sem innihéldu ekki þau efni sem lofað var á pakkningunum. Um var að ræða lækningajurtir en ekki hefðbundin fæðubótarefni frá fjórum fyrirtækjum: GNC, Target, Walgreens og Walmart. Allt fyrirtæki sem eru með sáralitla ef nokkra sölu hér á landi.

Þessar innihaldslausu meintu lækningajurtir, stundum kölluð „grasalyf“ voru ginseng, ginkgo biloba, St. John´s wort auk fleiri. Í víðtækustu túlkun orðsins fæðubótaefni mætti flokka gras úti á túni undir fæðubótarefni en raunin er sú að út frá sjónarmiði líkamsræktarfólks voru engin hefðbundin fæðubótarefni á lista grunaðra yfir innihaldslaus efni. Þar að auki hafa engin vörumerki sem seld eru hér á landi í einhverjum mæli orðið uppvís að því að selja innihaldslausar prótínblöndur né önnur fæðubótarefni. Mest seldu fæðubótarefnin hér á landi eru númer eitt prótínblöndur en þar á eftir kreatín og hin ýmsu efni sem hafa það markmið að efla vöðvauppbyggingu og flýta fyrir vöðvanæringu eftir mikil átök. Ekki grös.

Þörfin fyrir eftirlit með innihaldi fæðubótarefna hefur oft komið til umræðu og full þörf er á eftirliti með þessum vörum rétt eins og eftirliti með matvælum, lyfjum og öðru sem við leggjum okkur til munns. Skemmst er að minnast umfjöllunar um fæðubótarefni sem innihéldu önnur efni en þau voru sögð innihalda, þar á meðal efni sem voru á bannlista fyrir íþróttamenn. Fjallað var um þá rannsókn hér á landi á sínum tíma og látið að því liggja að þessi fæðubótarefni væru í almennri sölu hér á landi en svo var ekki. Umræðan um fæðubótarefni í hinum almennu fjölmiðlum litast einmitt af þessari afstöðu. Skítt með það hvernig málum er háttað hér á landi. Hafa skal í frammi það sem verr hljómar í fréttum. Annars er það ekki frétt.

Kastljósþátturinn bar grunsamlega vandræðaleg einkenni þess að vera sponsaður af ónefndum stjórnmálaflokk sem leggur áherslu á að verja íslenska bændur og framleiðslu þeirra. Öll fæðubótarefni voru sett undir sama hatt og þeim fundið flest til foráttu með alhæfingum sem skotið var í allar áttir. Vitnað var í áratuga gamlar og úreltar fréttir sem vörpuðu neikvæðu ljósi á öll fæðubótarefni sama hvaða nafni þau nefnast. Fæðubótaefni voru borin saman við kjöt, fisk og fleira á samhengislausan hátt og þeirri fullyrðingu varpað fram að enginn hafi þörf fyrir fæðubótarefni ef hann borðar hollt og gott fæði. Næringarfræðingar hafa af og til undanfarna áratugi varpað fram þessari fullyrðingu sem lýsir ekki beinlínis mataræði nútíma íslendinga né þeirri skyndibitamenningu sem hefur náð fótfestu hér á landi.

Boðskapur líkamsræktargeirans um fæðubótarefni er andstaðan við skyndibitamenninguna með sínum boðskap um hamingjusama offitu. Boðskapur Kastljóss í stuttu máli var að versla ætti kjöt og fisk af íslenskum bændum og tortryggja allt sem er í dollum – nema súrmat.

Sú var tilfinningin í það minnsta. Ekki virtist ritstjóri Kastljóss hafa heyrt um mismunandi nýtingu líkamans á prótínum eða háþróaðar prótínblöndur sem gefa okkur mikla næringu fyrir fáar hitaeiningar.

Enginn málsmetandi vísindamaður heldur því fram á árinu 2015 að þeir sem stunda líkamsrækt hafi ekkert gagn af fæðubótarefnum. Hér með er auglýst eftir einum. Uppistaða þeirra sem kaupa fæðubótarefni er fólk sem stundar líkamsrækt og hreyfingu. Líkamsrækt er iðnaður sem fæðubótarefni eru órjúfanlegur hluti af.
Prótín er og verður um ókomna tíð uppbyggingarefni vöðva sama hvað tautað er í fjölmiðlum og við sem stundum æfingar steikjum okkur ekki hitaeiningaríkar steikur eða sjóðum fisk nokkrum sinnum á dag til að uppfylla prótínþörfina. Við berum ekki heldur saman epli og appelsínur. Við berum ekki saman alvöru fæðubótarefni og grasalyf. Við berum ekki saman ólögleg fæðubótarefni sem aldrei hafa verið seld hér á landi við löglega innflutt fæðubótarefni. Það er því dapurlegt að í kjölfar fjölmargra vísindalegra rannsókna sem sýna fram á góða virkni fjölmargra fæðubótarefna skuli annars ágætt Kastljós vega að þeim myndarlega iðnaði sem líkamsrækt er orðin hér á landi. Varpa fram innihaldslausum fullyrðingum í okkar hitaeiningaríku en um leið næringarlausu veröld um að fæðubótarefni séu almennt óþörf. Umfjöllun Kastljóss var byggð á innihaldsleysi lækningagrasa í New York en reyndist sjálf innihaldslaus með því að fjalla um eitt en meina annað.