MyndFitnessfréttir á alþjóðlegri ráðstefnu sem haldin var í Brasilíu um lyfjaeftirlit í íþróttumHaldin var alþjóðleg ráðstefna um lyfjanotkun í íþróttum í Rio de Janeiro í Brasilíu um leið og heimsmeistaramót IFBB í fitness og vaxtarrækt kvenna var haldið. Á ráðstefnunni kom fram að í um 20% bætiefna á markaðinum innihéldu efni sem bönnuð væru samkvæmt reglum Alþjóða Ólympíusambandsins. Ólíklegt þykir að þessi bönnuðu bætiefni séu í bætiefnum hérlendis, enda sér Lyfjaeftirlit Ríkisins um að slík efni séu ekki flutt inn. Ef svo færi að íþróttamenn myndu falla á lyfjaprófum vegna þess að þeir hafa notað bætiefni sem eru ólögleg hafa þeir enga afsökun lengur. Alþjóða Ólympíunefndin hefur nefnilega gefið út frá sér yfirlýsingu þess efnis að enginn sveigjanleiki verði til staðar hvað þetta varðar. Þó svo væri að íþróttamaðurinn hafi ekki haft vitneskju um að hann væri að taka ólöglegt efni fer hann samt í keppnisbann

.Dr.Dr. Fransisco við Háskólann í Rio de Janeiro heldur því fram að vaxtarhormón séu helsta áhyggjuefnið í dag í sambandi við lyfjanotkun íþróttamanna vegna þess að það finnst ekki á lyfjaprófum.Það kom einnig fram á ráðstefnunni að íþróttamenn væru yfirleitt skrefi á undan lyfjaprófunum. Aðferðirnar sem íþróttamenn nota til þess að komast í gegnum lyfjapróf eru oft á tíðum ótrúlegar og hugmyndaríkar. Fyrir utan það að vera í sífelldri leit að nýjum lyfjum sem ekki finnast á lyfjaprófum, þá eru aðferðirnar oft skrautlegar. Tekið var sem dæmi um hugmyndaflug íþróttamanna að upp hefðu komið tilfelli þess að þeir sprautuðu þvagi úr öðrum manni inn í þvagblöðruna sína til þess að falla ekki á lyfjaprófi. Þannig eru þeir til í að leggja sig í lífshættu til þess eins að komast hjá því að falla. Það er því ekki eingöngu notkun ólöglegra lyfja og efna sem getur valdið þeim lífsháska. Í fyrirlestri Dr. Fransisco kom fram að flestar þjóðir heims væru sammála um að herða eftirlitið með lyfjanotkun íþróttamanna, ekki síst vegna heilsufarslegrar áhættu lyfjanotkunarinnar. Mótbárur heyrast oft þess efnis að íþróttamennirnir ættu að ráða hvað þeir láta ofan í sig, en Dr. Fransisco heldur því fram að íþróttamenn séu ekki ábyrgir gerða sinna og ættu því ekki að fá að ákveða hvað þeir gera við líkama sinn. Íþróttamaður er undir gríðarlegum þrýstingi frá samfélaginu til að ná árangri og er jafnvel skammaður opinberlega fyrir að ná ekki tilsettum árangri. Hann sjálfur er því ekki hlutlaus þegar ákvarðanir eru teknar um lyfjanotkun. Á heimasíðunni www.wada-ama.org er að finna ýmsar upplýsingar um stöðu lyfjanotkunar í íþróttum.