Annar hver maður í ræktinni er með eitthvað í eyrunum. Með eitthvað er átt við tónlist af einhverju tagi. Litlir spilarar sem hægt er að hlaupa með, hvort sem þeir heita iPod eða eitthvað annað eru orðnir mjög algengir. Þeir sem reynt hafa halda því margir fram að tónlistin geri æfingarnar auðveldari og hvetji þá áfram. Viti menn – það er mikið til í því samkvæmt breskri rannsókn. Fólk sem hjólaði um leið og það hlustaði á annað hvort hæga, meðalhraða eða mjög hraða tónlist átti auðveldast með að æfa þegar hlustað var á hraða tónlist. Það æfði minna og lagði ekki eins mikið á sig þegar hlustað var á hæga tónlist. Tónlistin hafði ekki áhrif á það hversu erfiðar æfingarnar þóttu, en fólk var viljugra til að leggja sig fram. Ef þig skortir viljann í ræktinni ættirðu því að setja eitthvað hratt og taktfast í eyrun.

(The New York Times, 25 ágúst 2010)