Tveir einstaklingar sem eru jafn háir og jafn þungir geta verið í gjörólíku líkamsformi, annar feitur og rýr, hinn skorinn og vöðvastæltur. Kona sem er 75 kg með 35% fituhlutfall og því tæknilega í offituflokki hefur allt annað útlit og hreyfigetu en kona sem er 75 kg og með 10% fituhlutfall. Önnur er vöðvalítil og rýr með kílóin á mjöðmum, lærum og rassi á meðan hin er stælt og samsvarar sér mun betur. Önnur þarf að taka á til að fara fram úr rúminu á meðan hin sprettur framúr.
Létting og fitubrennsla er ekki það sama
Þyngd líkamans er heildarþyngd alls þess sem hann er gerður úr hvort sem það er fita, hreinn vöðvamassi, bein, líffæri eða vatn. Létting getur því verið einungis vatnstap eða vöðvarýrnun.
Fituhlutfallið skiptir mestu máli fyrir þá sem vilja léttast og því ættu æfingar og mataræði helst að snúast um fitubrennslu en ekki léttingu. Að greina þarna á milli kann að hljóma einfalt í fyrstu en það felast ákveðnar gildrur í að horfa einungis á léttingu en ekki fituhlutfall.
Í grundvallaratriðum kenna flestir skólar að þú léttist ef þú brennir fleiri hitaeiningum en þú borðar. Þessi formúla gildir um flest, en hún segir ekki alla söguna. Ef þú ert í sífelldu ofáti skiptir engu máli hvað þú borðar – þú fitnar. Einstaka fólk stundar ekki ofát en er samt feitt og þarf að lifa með of háu fituhlutfalli. Sömuleiðis er til fólk sem æfir mikið en er samt í vandræðum með fituhlutfallið.
Áhersla á léttingu stuðlar að jójó lífstíl
Vigtin segir ekki allan sannleikann. Flestir léttast svolítið að nóttu til vegna uppgufunar og hægt er að léttast um hálft eða heilt kíló í einni salernisferð. Að horfa á lækkandi tölur á vigtinni getur verið hvetjandi. Hættan er að of mikil áhersla á léttingu kalli á jójó mataræði og að þú verðir innan fárra mánaða í sömu eða þyngri sporum á vigtinni.
Að horfa á lækkandi tölur á vigtinni getur verið hvetjandi. Hættan er sú að of mikil áhersla á léttingu kalli á jójó mataræði og að þú verðir innan fárra mánaða í sömu eða þyngri sporum á vigtinni.
Grenningarmataræði sem byggist á að fækka hitaeiningum verulega er því tvíeggjað. Það getur virkað vel til að létta þig en ef of hratt er farið er líklegt að árangurinn sé tímabundinn og áhrifin haft slæm áhrif á heilsuna. Vigtin segir þér hvort þú léttist en hún getur ekki sagt þér hversu mikla fitu þú losnaðir við né hversu vel þér líður.
Grundvallaratriði að þekkja vöðva- og fituhlutfall
Allar rannsóknir í heilsuræktargeiranum sem snúa að offitu byggjast á að skoða sérstaklega hlutfall fitu og vöðvamassa. Eðlilega er best að lækka fituhlutfallið og hækka eða í það minnsta varðveita vöðvahlutfallið.
Fituhlutfall segir mun meira en BMI líkamsþyngdarstuðullinn
Vöðvastæltur íþróttamaður sem er í frábæru formi með einungis 10% fituhlutfall getur flokkast í offituflokk samkvæmt BMI líkamsþyngdarstuðlinum (Body Mass Index). Stuðullinn tekur einungis tillit til heildarþyngdar og hæðar, ekki fitu eða vöðvahlutfalls. Þannig geta tveir menn sem báðir eru 110 kg og 182 sm á hæð flokkast sem alltof feitir. Annar er vöðvastæltur en hinn er raunverulega feitur. Það má því ekki alhæfa of mikið um niðurstöður þessa stuðuls.
Að vera „feitmagur“
Fjöldi rannsókna sýna fram á að staðsetning fitu á líkamanum skipti meira máli en magnið. Sumir hafa mikla innviðafitu en líta út fyrir að vera grannir, eru frekar léttir en samt með hátt fituhlutfall. Þaðan kemur hið öfugsnúna orð að vera „feitmagur“. Hægt er að vera grannur á yfirborðinu en allir innviðir mjög feitir. Innyflafita og fita á milli vöðva og í kringum líffæri er þá óvenju mikil.
Innviðafita er hættulegri en fita undir húð
Oftast er það magn fitunnar undir húðinni sem ræður upplifun okkar af því hvort við séum feit eða grönn. Innviðafitan, einnig kölluð innyflafita er sérlega hættuleg í miklu magni vegna þess að hún umlykur mikilvæg líffæri eins og hjarta og lifur. Þessi fitutegund er hættulegri en fitan undir húðinni vegna þess að efnaskipti hennar eru mun virkari en í annarri fitu. Staðsetning fitunnar skiptir miklu samvæmt rannsóknum sem sýnt hafa fram á að kviðfita auki hættuna á hjartasjúkdómum og áunninni sykursýki. Nálægð fitunnar við hjarta og lifur getur haft áhrif. Þannig er talið að fita umhverfis lifrina dragi úr hæfni hennar til að vinna insúlín úr blóðrásinni sem til lengri tíma stuðlar að áunninni sykursýki.
Létting vegna tímabundins öfgafulls mataræðis og óskipulagðrar þjálfunar | Fitubrennsla með næringarríku grenningarmataræði og góðu æfingakerfi |
Lélegt líkamsform | Betra líkamsform |
Minni styrkur | Meiri styrkur |
Veikara ónæmiskerfi | Sterkara ónæmiskerfi |
Léleg frammistaða | Frábær frammistaða |
Vanlíðan | Vellíðan |
JóJó megrunarheilkenni | Meiri lífsgæði |
Góðu fréttirnar eru þær að hin mikla efnaskiptavirkni innviðafitunnar þýðir að hún er fyrsta fitan til að fara þegar fitubrennsla fer að virka.
Samantekt
Mikilvægara er að losna við innviðafitu, kviðfitu og minnka mittismál til að efla insúlínviðnám í stað þess að horfa einungis á léttingu í kílóum á vigtinni. Í sumum tilfellum fer þetta saman en maður sem er í viðunandi þyngd en er með mikla kviðfitu er í meiri hættu gagnvart ýmsum sjúkdómum en sá sem er þungur en hlutfallslega með litla fitu á kvið og mjöðmum.
Í stuttu máli ætti því ekki einungis að reyna að léttast. Mikilvægt er að losna við kviðfituna þar sem næmni líkamans gagnvart úrvinnslu insúlíns hefur áhrif á kviðfitusöfnun.