sykur_varirNæringarfræðingar hafa síðan á áttunda áratugnum hvatt til þess að borða kolvetni í mataræðinu á kostnað fitu. Á sama tíma hefur offita aukist, áunnin sykursýki og insúlínviðnám hefur sömuleiðis aukist. Í dag er talið að mataræði sem byggist á fæðutegundum með hátt glýsemíugildi valdi áunninni sykursýki og kransæðasjúkdómum. Glýsemíugildi matvæla er mælikvarði sem segir til um það hversu hratt ákveðnar fæðutegundir sem innihalda kolvetni hækki blóðsykur. Fæðutegundir með lágt glýsemíugildi stuðla að lægri blóðþrýsting, minni blóðfitu og minnka bólgur í líkamanum. Fyrir vikið er talið að mataræði sem byggist á lágu glýsemíugildi geti komið í veg fyrir og jafnvel verið meðferðarúrræði við efnaskiptasjúkdómum, hjartaáföllum og heilablóðfalli. Þessar ályktanir eru ekki nýjar af nálinni en sýna að kolvetni eru ekki öll sköpuð eins. Eftir stendur að hlutfall kolvetna í mataræðinu getur verið mjög hátt án teljandi heilbrigðisvandamála. Það sem þarf að horfa til er að gæta þess að halda fæðutegundum með hátt glýsemíugildi í hófi. Þetta ætti ekki að koma á óvart, þar sem einfaldur sykur og flestar mikið unnar matvörur sem byggjast á kolvetnum eru með mjög hátt glýsemíugildi.
(Current Opinion Clinical Nutrition Metabolic Care, 17: 373-378, 2014)