Fjöldi rannsókna hafa sýnt fram á að steranotkun gerir flesta sem nota þá uppstökkari og viðskotaillri en ella.Hjá um 10% notenda getur verið um alvarleg geðræn vandamál að ræða. Er þá talað um svokallaða “sterabræði” sem lýsir sér í stjórnlausum reiðiköstum með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Töluverður fjöldi nýlegra rannsókna rennir stoðum undir að langvarandi notkun stera hafi einnig langvarandi áhrif á heilann, ef ekki varanleg. Sterar eru notaðir í læknisfræðilegum tilgangi og gagnast þannig fjölda manns, en þekktasta og almennasta form steranotkunar er líklega getnaðarvarnarpillan. Auk þess er þekkt að íþróttamenn noti stera í þeim tilgangi að ná meiri árangri. Sýnt hefur verið fram á að kynlöngun minnkar hjá konum sem taka getnaðarvarnarpilluna samfellt í langan tíma. Er jafnvel talin hætta á að um varanleg áhrif sé að ræða. Í rannsóknum þar sem hömstrum voru gefnir sterar var augljóst að þeir urðu árásargjarnari og voru það í nokkrar vikur eftir að hætt var að gefa þeim stera. Vildu vísindamennirnir heimfæra þá niðurstöðu yfir á okkur mannfólkið að þessar vikur sem hamstrarnir voru að jafna sig myndu jafngilda nokkrum árum hjá mönnum. Sökum þessa hafa verið leiddar líkur að því að steranotkun hafi langvarandi áhrif á menn. Líkurnar verða að teljast sterkar, en frekari rannsóknir þarf að gera á mönnum til þess að slíkt sé sannað endanlega. Hvort hægt sé að gera slíkar rannsóknir er annað mál. Þær taka mörg ár og eru afar flóknar. Neuroscience, 120: 115-124, 2006