Árekstrar á milli bætiefnafyrirtækja og lyfjafyrirtækja gerast æ tíðari. Fyrir utan olíufyrirtækin eru fá fyrirtæki í heiminum í dag sem eru voldugri en lyfjafyrirtækin. Starfsemi þeirra byggir á að þau fái einkaleyfi á því sem selt er og þeim er mikið hagsmunamál að sitja ein að kökunni þegar heilsu- og offitumarkaðurinn er annars vegar. Af þessum rótum er augljóslega runnin andstaða þeirra gegn neyslu almennings á bætiefnum. Efst í fílabeinsturni heilbrigðiskerfisins trónir Landlæknir sem gjarnan otar veldissprota sínum að öllu sem ekki er lyfsseðilsskylt og sér því allt til foráttu.

Offitufaraldurinn er orðinn slíkur að allt stefnir í stærsta heilbrigðisvandamál nútímans ef ekkert verður að gert og því undarlegt að heilbrigðiskerfið sé ekkert að gera til þess að sporna við þeirri þróun nema helst að agnúast út í áhugafólk um líkamsrækt og bætiefni. Heilbrigðiskerfið virðist einna helst ætla að bíða eftir lyfsseðilsskyldu lyfi sem leysa á offituvandann. Þar liggja peningarnir, ekki í bætiefnum sem enginn fær einkaleyfi á og allir mega selja. Heilbrigðiskerfið er þannig smátt og smátt að verða samheiti lyfjakerfisins, enda stjórna lyfjafyrirtækin því sem þau vilja stjórna í heilbrigðiskerfi heimsins. Coca Cola, gervisykurinn og Viagra verða eins og smábissness við hliðina á lyfinu sem kemur til með að leysa offituvandann.

Það sem helst fer í taugarnar á undirrituðum er þegar opinberir veldissprotar ota sínum tota að líkamsræktargeiranum með því að nefna hina almennu neyslu líkamsræktarfólks á bætiefnum í sömu andrá og talað er um stera, smygluð lyf eða jafnvel eiturlyf. Bróðurparturinn af líkamsræktarfólki í dag borðar eitthvað af bætiefnum, þó ekki sé nema Lýsi, og það að tala um slíka neyslu um leið og rætt er um smyglvarning segir allt sem segja þarf um það á hvaða stigi þessi umræða er. Leiðir bætiefnamarkaðarins og lyfjamarkaðarins koma aldrei til með að eiga samleið eðlis þeirra vegna. Það er sorglegt þegar haft er í huga að almenningur leitar helst inn í æfingastöðvar landsins til þess að sporna gegn offituvandanum og þar er almennt ráðlagt að neyta bætiefna. Hið opinbera stendur því á vissan hátt utan við eitt þarfasta heilbrigðisátak samtímans.

Einar Guðmann, ritstjóri