Það hefur ekki farið framhjá mörgum að fituríkt fæði getur valdið hjartasjúkdómum. Japanskir vísindamenn hafa þessu til áhersluauka bent á niðurstöður rannsóknar sem þeir gerðu sem sýndi að einungis ein máltíð getur haft þau áhrif í ungum mönnum að minnka blóðflæði hjartans um 18%. Þar var miðað við eina máltíð sem innihélt 1200 hitaeiningar og 100 grömm af fitu. Ungir menn geta þolað þetta, en fyrir miðaldra og eldri menn sem eru með hjartasjúkdóma getur þetta gert gæfumuninn á milli lífs og dauða. Talið er að þetta skýri hvers vegna stórar máltíðir valdi brjóstverkjum og jafnvel hjartaáfalli hjá fullorðnum körlum. Fituríkar máltíðir auka blóðfitu (þríglyseríð) en vísindamennirnir vita ekki hvort þar sé komin skýringin á minnkandi blóðflæði í hjartanu eftir stórar máltíðir.

Ann. Int. Med. 136: 523-528, 2002