Hraustu fólki þykir gaman að taka vel á því í ræktinni og nú þegar CrossFit, BootCamp og önnur sambærileg æfingakerfi hafa komið fram á sjónarsviðið er hætt við að sumir fari full hratt í æfingarnar ef þeir eru ekki í góðu formi.

Það að láta einhvern æstan þjálfara í hóptíma arga sig hásann yfir sér og hvetja sig áfram getur hreinlega verið lífshættulegt. Mikil vöðvaátök geta valdið vöðvameiðslum sem geta stofnað fólki í lífshættu.

Fólk sem hefur á einhverjum tímapunkti verið í góðu formi, hættir að æfa, en byrjar síðan aftur af kappi er í mestu hættunni. Það að ætla að byrja að æfa af kappi eftir langt hlé er sem sagt hættulegast.

Ofáreynsla getur valdið ástandi sem kallast rákvöðvalýsa (rhabdo)  en þá eyðileggst vöðvavefur með þeim afleiðingum að vöðvarnir verða fljótlega eftir æfinguna áberandi aumir, mun aumari en venjulegar harðsperrur gefa kost á. Míóglóbín úr vöðvafrumunum fer út í blóðið og veldur það miklu álagi á nýrun að þau eiga erfitt með að starfa. Þvag verður dökkbrúnt og fólk finnur fyrir svima og fær uppköst.
Mikilvægt er að drekka mikið vatn og borða til að hjálpa nýrnastarfseminni.

Í verstu tilfellum þarf að leggja fólk inn á sjúkrahús, gefa því vökva í æð og jafnvel tengja það við blóðhreinsivél. Fari allt á versta veg geta nýrun hætt að starfa sem leiðir til dauða. Það er því lífshættulegt að fara of geyst á æfingum.

Ekki liggja fyrir tölur úr heilbrigðiskerfinu hér á landi um tíðni rákvöðvalýsu, en í bandaríkjunum hefur tíðnin stóraukist í kjölfar vinsælda erfiðra æfingakerfa. Um 3% slökkviliðsmanna, hermanna og lögreglumanna sem stunda efiðar æfingar hafa tilkynnt um rákvöðvalýsu. Læknar hafa ennfremur tilkynnt um fjölgun tilfella meðal almennings sem fer full geyst á æfingum í æfingastöðvum. Nákvæmt hlutfall liggur ekki fyrir en talið er að fjöldi tilfella sé vanmetinn.
(The New York Times, 4. janúar 2014)