egg_nokkurFrægustu og viðamestu rannsóknirnar sem gerðar hafa verið á mataræði eins og Framingham rannsóknin og sjö landa rannsóknin sýndu fram á að tengsl voru á milli kólesteróls í blóði og hjartaslags og heilablóðfalls. Afleiðingin varð sú að næringarfræðingar horfðu í kringum sig eftir sökudólgum og drógu þá ályktun að egg væru einn helsti orsakavaldurinn sökum þess að þau innihalda óvenju mikið af kólesteróli. Eggjum var þannig í raun kennt um stóran hluta af hjartasjúkdómum. Frank Sacks við Harvardháskóla heldur því fram að mettuð fita í mataræðinu hafi meira að segja um kólesteról í blóði en kólesteról í mataræðinu og það sé því ekki hægt að kenna eggjum um hjartasjúkdóma. Egg hafa því á vissan hátt fengið uppreist æru í umræðunni en á sama tíma sýna aðrar rannsóknir að egg eru ekki skaðlaus fæðutegund. Fólk með sykursýki sem borðar eitt egg á dag eykur líkurnar á að fá hjartasjúkdóm um 44% í samanburði við fólk sem borðar einungis eitt egg á viku. Ennfremur eru þeir sem borða egg líklegri til að fá krabbamein í blöðruhálskirtli.
Flestir næringarfræðingar af gamla skólanum mæla með því að fólk temji sér hollar neysluvenjur sem feli í sér að borða ávexti, grænmeti, kornmeti, fitulitlar mjólkurafurðir, fiskmeti, baunir og hnetur. Fólki er sömuleiðis ráðlagt að drekka áfengi í hófi, draga úr neyslu á rauðu kjöti og unnum kjötafurðum og sleppa sykruðum fæðutegundum. Egg geta því hæglega verið hluti af hollu mataræði þegar á heildina er litið.
(Nutrition Action Health Letter, júní 2015)