Paprikukryddið sem við notum á mat er búið til úr rauðum chili-pipar og virka efnið í piparnum nefnist Capsaicin sem ásamt fleiri skyldum efnum kallast gjarnan capsaicinoids. Þetta er pipar sem er oft notaður til að krydda mexíkanskan mat og hina ýmsu chili-rétti. Sumir chili-réttir eru svo sterkir að menn fá á tilfinninguna að gufustrókar standi út úr eyrum. Þetta er sömuleiðis eitt af þeim efnum sem er í piparúðanum sem lögreglan notar.

Það eru ekki mörg fyrirtæki sem framleiða bætiefni með Capsaicin en gera má ráð fyrir að þeim fjölgi þar sem sýnt hefur verið fram á léttingaráhrif þessara efna. Í rannsókn sem gerð var við Háskólann í Memphis í Bandaríkjunum undir stjórn Richard Bloomer reyndust svonefnd Capsimax bætiefni (100mg) auka fitusýrulosun úr fitufrumum næsta tvo og hálfan klukkutímann eftir þolæfingu sem stóð í hálftíma miðað við lyfleysu. Efnið hafði hinsvegar engin áhrif á adrenalín, hjartslátt né blóðþrýsting. Rannsóknin þykir vel framkvæmd og niðurstöðurnar lofa góðu en hafa ber í huga að langtímaáhrif eru ekki ljós. Ekki þykir ólíklegt að capsaicinoid séu heppileg sem bætiefni fyrir þá sem vilja létta sig en það þarf að gera frekari rannsóknir til þess að skera úr um hver langtímaáhrifin eru og hversu áhrifarík þessi efni eru raunverulega á léttingu, hjartslátt og blóðþrýsting til lengri tíma. Stundum endurspegla lofandi rannsóknarniðurstöður ekki endilega raunveruleikann. Mexíkanar eru feitir eins og annað fólk þrátt fyrir að borða mikið af chili. Það segir okkur kannski eitthvað um langtímaáhrifin, en það má engu að síður ímynda sér að efnið sé til gagns þó að það leysi ekki öll okkar vandamál.

(Lipids in Health and Disease, 9:72, vefútgáfa 2010)