Samkeppni í íþróttagreinum gerir það að verkum að íþróttamenn eru oft tilbúnir til að ganga mjög langt til þess að komast í fremstu röð í sinni keppnisgrein. Lyfjamisnotkun kemur þá fyrst upp í hugann.

Mikill meirihluti íþróttamanna er heiðarlegur og misnotar ekki lyf, en tekur hinsvegar hin ýmsu leyfilegu bætiefni sem vitað er að geta bætt frammistöðu í íþróttum. Má þar nefna kreatín, amínósýrur, HMB, koffín og hin ýmsu bætiefni sem efla „andlega“ frammistöðu. Þetta eru allt leyfileg bætiefni sem eru ekki á bannlista Alþjóða Ólimpíunefndarinnar. 

Borið hefur á því erlendis að efni hafi fundist í bætiefnum sem hafi fellt íþróttamenn á lyfjaprófum. Er þá búið að bæta einhverjum ólöglegum efnum í bætiefnin, væntanlega til þess að auka virkni þeirra á einhvern hátt. Hér á landi hafa löglegir bætiefnasalar ekki orðið uppvísir að því að selja bætiefni af þessu tagi enn sem komið er. Ef slík tilfelli koma upp hér á landi er líklegast að það gerist í tengslum við innflutning sem á rætur sínar að rekja til erlendra vefverslana.

Svissneskir vísindamenn rannsökuðu 103 bætiefni sem keypt voru í gegnum vefverslanir á veraldarvefnum. Í þremur mældust sterar og fjórtán innihéldu forhormón sem eru á bannlista Ólimpíunefndarinnar. Í tveimur kreatínblöndum fannst nandrolón myndefni.

Það er afskaplega auðvelt að falla á lyfjaprófi. Vísindamenn hafa prófað í tilraunaskini að gefa fólki litla skammta af nandrolóni (1.0, 2.5, eða 5.0 míkrógrömm) með kreatíni í vatnsglasi. Síðan mældu þeir magn nandrolóns í sólarhring eftir drykkjuna til þess að fylgjast með styrkleika þess. Rannsóknin byggðist á því að mæla þvagsýni. Þrátt fyrir að um afar lítið magn væri að ræða mældist nandolón í fyrstu tveimur þvagsýnunum.

Þetta sýnir fram á að íþróttamenn sem vilja ekki falla á lyfjaprófi þurfa virkilega að gæta þess að nota einungis bætiefni frá viðurkenndum söluaðilum. Reglur Alþjóða Ólympíunefndarinnar hljóða upp á það að íþróttamaðurinn sjálfur beri alltaf ábyrgð á hvað hann lætur ofan í sig. Afsakanir um að menn hafi ekki vitað af menguðum bætiefnum eru ekki teknar gildar. Þetta eiga menn að vita. Ef þú átt von á því að fara í lyfjapróf skaltu vera viss um að bætiefnin sem þú tekur séu lögleg og settu stórt spurningamerki við bætiefni sem þú kaupir erlendis frá í gegnum vafasamar vefverslanir.

(Medicine Science Sports Exercise, 41: 766-72, 2009)