Nokkuð hefur verið rætt og ritað um bjórvambir. Vildu menn kenna bjórnum um óhóflega ýstru þeirra sem voru iðnir við bjórdrykkjuna. Nýverið hafa nokkrar rannsóknir verið birtar sem sýna fram á að ástæða sé til að efast um tengsl bjórdrykkjunnar og ýstrunnar.

Við vitum að hófleg drykkja alkóhóls (með áherslu á hóflega) hefur í för með sér margt jákvætt. Þeir sem drekka eru langlífari, fá síður hjartaáfall eða heilablóðfall og verða síður Alzheimer sjúkdómnum að bráð. Einnig eru minni líkur á að þeir sem drekka hóflega fái gigt. Efnaskipti þeirra eru heilbrigðari vegna aukins insúlínviðnáms, sem aftur bætir kyngetuna, dregur úr fitusöfnun á magasvæðinu, blóðþrýstingur og blóðfita mælist auk þess heppilegri. Alkóhólið kann að vera skýringin á því hvers vegna menn lifa lengur í löndum eins og Frakklandi, Spáni, Ítalíu og Portúgal. Í þessum löndum tíðkast hófleg drykkja léttvína með mat. Í ljósi þess sem hér er upp talið á undan hefði mátt ætla að það væri nú í góðu lagi að drekka bjór. Ekki aldeilis, því rannsóknin sem ætlunin er að segja frá sýnir fram á annað.

Þýskir vísindamenn hafa sýnt fram á tengsl bjórdrykkju og aukinnar líkamsfitu. Skemmst frá að segja sýna niðurstöður þeirra fram á að bjórvömbin er goðsögn. Bjórdrykkjumenn eru vissulega með meira mittismál en aðrir, en þeir eru líka feitari. Rannsóknin sýndi ekki fram á tengsl bjórdrykkju og offitu kvenna. Ekki er ólíklegt að konur drekki almennt minna af bjór en karlar.

Mikill meirihluti rannsókna sýnir fram á að það getur verið mjög heilsusamlegt að drekka hóflega. Þetta á hinsvegar einungis við þá sem geta haldið drykkjunni hóflegri, eiga ekki við sálfræðileg vandamál að stríða sem tengjast drykkju og eru ekki fíklar af einhverju tagi. Sorgarsögurnar sem fylgja drykkjuvandamálum eru of margar til þess að hægt sé að horfa framhjá þeirri staðreynd að mörgum hefur orðið hált á svellinu þegar meðferð áfengis er annars vegar.

(European Journal Clinical Nutrition, prentútgáfa á vef: 24. júní 2009)