Fjölmargir vöðvahópar koma við sögu í réttstöðulyftunni þar sem margir gegna því hlutverki að styðja við líkamann. Þar má t.d. nefna kviðvöðva og kálfa.

Réttstöðulyftan er öflug æfing fyrir flestar íþróttagreinar vegna þess að staðan sem hún byrjar í er undirstaða margra íþróttagreina og styrkurinn sem hún þjálfar er undirstaða í mörgum átökum. Þessi æfing er tvímælalaust ein sú hraðvirkasta þegar ætlunin er að byggja upp styrk og vöðvamassa.

Réttstöðulyftan tekur á rassinn, aftan á lærin, trappann, efra- og neðra- bakið, axlir og framhandlegginn – og lengur mætti telja.

Æfingin er gerð þannig að staðið er með fætur í um axlabreidd, beygt sig niður og tekið um stöngina með gripi fyrir utan hnén. Halda þarf eðlilegri líkamsstöðu þegar tekið er á og lyft upp. Bakið þarf að halda vel við og vera beint og brjóstið á að ýtast fram og upp. Byrjað er á að rétta úr mjöðmunum og hnjánum samtímis en þess gætt að stöngin sé nálægt fótleggjunum og olnbogar eru útréttir. Einnig þarf að gæta þess að halda beinni stöðu á bakinu þegar stöngin er látin síga niður að gólfi. Flestir eru sterkastir með því að nota svokallað réttstöðulyftugrip – þá vísar annar lófinn fram og hinn aftur á stönginni. Einnig er hægt að gera aðra útgáfu af lyftunni sem kennd er við súmó-stílinn en þá er staðið mjög gleitt og gripið er um stöngina innan við hnén. Sömuleiðis er hægt að nota snörunar-stíl – þá er notað mjög gleitt grip en fótastaðan með axlarbreidd eins og í hefðbundinni réttstöðulyftu.
(NSCA Exercise Methods Notebook)