Það er ekki eingöngu í fótboltanum sem taka þarf á agamálum sem varða íþróttamenn sem missa stjórn á skapi sínu. Í lok verðlaunaafhendingar í vaxtarrækt á nýloknu Íslandsmóti sem fór fram í Háskólabíói veittist Sigurkarl Aðalsteinsson að dómurum með grófum hætti og hinum ýmsu formælingum.Hann hafnaði í öðru sæti á eftir margföldum Íslandsmeistara Magnúsi Bess og var ekki á eitt sáttur við þá niðurstöðu. Þykir Sigurkarl hafa sýnt bæði dómurum, íþróttinni og ekki síst öðrum keppendum lítilsvirðingu og dónaskap með þessu framferði. Bað hann einn dómara afsökunar á framferði sínu skömmu síðar þegar honum rann mesta reiðin en þá var mótinu lokið. Sambærileg atvik hafa ekki komið upp hérlendis áður á mótum Alþjóðasambands líkamsræktarmanna en ljóst er að um er að ræða gróft brot á siðareglum sambandsins. Gert er ráð fyrir ákveðnum viðurlögum við brotum sem þessum í siðareglum og hefur málið verið sent erlendis til meðferðar aganefndar sem væntanlega mun senda frá sér niðurstöðu innan skamms.  Ekki þykir ólíklegt að niðurstaðan muni verða tímabundið keppnisbann og hugsanleg svipting verðlauna.

 

Einar Guðmann, yfirdómari