strawberry in sugarDrykkir sem innihalda mikið af ávaxtasykri eru líklega í nágrenni við 15% allra hitaeininga sem neytt er í hinum dæmigerða vestræna heimi. Aukinni sykurneyslu í formi drykkja er kennt um offitufaraldurinn að miklu leyti, ekki síst meðal ungmenna sem sækja sérstaklega mikið í sæta drykki. Bragðlaukar ungs fólks eru ekki eins og fullorðinna og skynjun þeirra á sætum drykkjum er ýktari en fullorðinna. Þeim er því hættara við að falla fyrir sætu sykurdrykkjunum en fullorðnum. Til að bíta höfuðið af skömminni eru þessir drykkir meira eða minna næringarlitlir og innihalda fyrst og fremst svonefndar „tómar“ hitaeiningar. Engin næringarefni, steinefni eða vítamín svo heitið getur hvað sem auglýsingar segja.

Neysla þessara sætu drykkja er bendluð við aukna sækni í skyndibitamat og saltríka fæðu. Rannsókn við Yale háskólann í Bandaríkjunum sýnir fram á að ávaxtasykurinn seðjar hungur frekar illa. Vísindamenn rannsökuðu blóðflæði í undirstúku heilans eftir neyslu ávaxtasykurs og glúkósa. Glókósinn dró úr blóðflæði um það svæði í undirstúkunni sem hefur með matarlyst að gera á meðan ávaxtasykurinn gerði það ekki. Niðurstöður þessarar rannsóknar á blóðflæði hafa verið mjög umdeildar meðal nokkurra sérfræðinga, en þykja engu að síður gefa vísbendingar sem marka má.

(ScienceDaily, 15. janúar 2013)